Jónas Hallgrímsson - Úr ljóđinu Dalvísa
Fífilbrekka! gróin grund!
grösug hlíð með berjalautum!
flóatetur! fífusund!
fífilbrekka! smáragrund!
yður hjá ég alla stund
uni best í sæld og þrautum;
fífilbrekka! gróin grund!
grösug hlíð með berjalautum!
Fróđleikur
Í greinasafni er að finna margvíslegan fróðleik um ýmislegt sem lýtur að garðyrkju. Greinaflokkar eru valdir hér að neðan. Undir hverjum flokki eru síðan fjölmargar greinar eftir ýmsa höfunda.

Góða skemmtun.
Sáning og uppeldi sumarblóma

Sumarblómaræktun í skammdeginu er upplagt áhugamál fyrir alla fjölskylduna. Gleði og ánægja felst í því að sá til fallegra blóma, sjá þau vaxa og dafna og planta þeim að lokum út í garðinn að vori. Byrja má snemma vetrar að íhuga hvaða tegundir sumarblóma væri helst reynandi við, panta fræ úr frælistum eða skoða úrval blómabúðanna. Hægt er að stunda blómaræktina við fremur frumstæðar aðstæður. Ekki þarf endilega gott gróðurhús eða gróðurskála til að ná þolanlegum árangri. Hægt er að bjargast við kjallara, bílskúr eða stofuglugga svo eitthvað sé nefnt.

Vegna þess hve íslenska sumarið er stutt og svalt þarf að forrækta flestar tegundir sumarblóma. Tegundum er sáð inni og þær ræktaðar þar í ákveðinn tíma við bestu skilyrði.

Hversu löng er þá þessi forræktun, gæti einhver spurt. Svarið er að hún er mjög mismunandi eftir tegundum. Forræktunartíminn er samanlagður sá tími sem tekur hverja og eina tegund að spíra að viðbættum þeim tíma sem líður frá spírun til blómgunar. Þess vegna þarf að sá sumum tegundum strax í janúar en öðrum ekki fyrr en í apríl eða maí. Kemur þetta vel fram í töflu um tegundaúrvalið síðar í greininni.

Fræval.

Miklu máli skiptir að kaupa gott fræ. Fyrst og fremst má segja að átt sé við ferskt (nýtt) fræ en yfirleitt stendur dagsetning fræsöfnunardags á fræpoka og má lesa út frá því aldur fræsins. Flest sumarblómafræ missa spírunarhæfni sína á tiltölulega stuttum tíma eða á einu til tveimur árum. Einnig er mælt með F1 fræjum en F stendur fyrir Filial (afkomendur) en 1 fyrir fyrstu kynslóð. Þetta er þá fyrsta kynslóð foreldra sem hafa verið ræktaðir í arfhreina línu og síðan frjóvgaðir saman. Eftirsóttir eiginleikar s.s. blómlitur og blómstærð sameinast í afkvæmum og eiga þau að taka fram báðum foreldrum. Þessi F1 fræ eru tiltölulega dýr en bregðast ekki.

Þegar fræ hefur verið valið er skynsamlegt (sérstaklega ef um margar tegundir er að ræða) að merkja fræbréfin með dagsetningu sáningar og krossa við sáningardagsetninguna í dagbókinni.

Yfirleitt eru leiðbeiningar á fræbréfinu um sáningardýpt og sáningarhitastig og er ráðlegt að fylgja þessum leiðbeiningum svo sem kostur er. Leiðbeiningum um sáningarstað og sáningartíma ætti fólk að líta framhjá, því miðað er við allt aðrar aðstæður en ríkja hérlendis og mun lengra sumar. Oft er sagt hentugast að sá í sólreit eða beint út í landið á bréfunum, en það gengur ekki hérlendis, nema þá með örfáar tegundir sem þurfa mjög stuttan ræktunartíma og þær ná ekki að blómstra fyrr en seinni part sumars.

Undirbúningur sáningar.

Að ýmsu þarf að hyggja áður en sáningin sjálf á sér stað. T.d. þarf að velja ílát til að sá í. Hentugast er að nota 10-15cm plastpotta (að þvermáli í opi potts), en einnig má nota mjólkurfernur, jógúrtdósir, ýmiskonar bakka o.fl. í sparnaðarskyni. Best er að nota einn pott eða bakka fyrir hverja tegund vegna þess að spírunartími tegunda er misjafn og strax eftir spírun þarf að koma plöntunum í betri lýsingu (sbr. síðar).

Öll sáningarílát verða að vera hrein og athugið hvort ílátin séu með góða framræslu (götuð í botninn).

Sáningarmoldin þarf að vera fínkorna, létt og laus við allt sem heitir illgresisfræ. Sé notuð venjuleg Stjúpublóm (Viola x wittrockiana) er sívinsælt sumarblóm. garðmold er hætt við sveppasjúkdómum og þar er svartrótin (Pythium) varhugaverðust. "Bæsa" má fræin til að koma í veg fyrir fallsýki, en það felst í því að smáskammtur af sveppalyfi er settur í fræpokann fyrir sáningu og pokinn síðan hristur. Fræin þekjast af ljósu duftinu og auðveldar það einnig sáninguna sérstaklega ef um mjög smá fræ er að ræða (t.d. ljónsmunna eða brúðarauga). Önnur aðferð til að koma í veg fyrir svartrót er að blanda sveppalyfjum í moldina (t.d. Brassicole, Captan eða Orthocide) annaðhvort beint, eða vökva með efninu uppleystu í vatni eftir sáningu. Athugið að fylgja vel leiðbeiningum á umbúðum lyfjanna. Sé notuð innflutt hvítmosatorfmold (Sphagnum mold) á ekki að vera nein hætta á sveppasjúkdómum og óþarfi að nota sveppalyf. Þegar moldarblandan er tilbúin er moldin sett í pottana og gætt að því að fylla pottana ekki, heldur hafa gott borð á þeim. Plönturnar verða að hafa gott pláss til að vaxa upp í eftir að fræin spíra. Áður en hafist er handa við sáninguna er einnig gott að gera sér grein fyrir helstu forsendum fyrir því að fræið spíri og plönturnar fari að vaxa. Vatn verður að vera til staðar. Vatnsupptakan er háð hitastigi þannig að við hátt hitastig verður hún meiri en við lágt hitastig. Súrefni er nauðsynlegt til öndunar (róta). Hitastig verður að liggja nærri kjörhita til spírunar, en hann liggur á bilinu 15-20°C hjá allflestum tegundum sumarblóma.

Sáning/spírun.

Yfirleitt er notuð svokölluð dreifsáningaraðferð við sáninguna. Tæknin er tiltölulega einföld. Sáðbréfinu er haldið milli þumalfingurs og vísifingurs, það krumpað lítillega og hrist þannig að rétt dreifing fáist á flötinn.

Ef fræin eru stór borgar sig að sá hverju fræi fyrir sig. Sé fræið aftur á móti mjög smátt og samlitt moldinni borgar sig að blanda því saman við sveppalyf eða krítarduft svo að dreifingin verði sýnileg. Þegar fræjunum hefur verið sáð, skal þrýsta létt ofan á þau með plötu eða tilsniðnu bretti til þess að fræið komist í betri snertingu við jarðveginn.

Ef um meðalstór eða stór fræ er að ræða eru þau hulin með fínum sandi, vikri eða sigtaðri fínni mold. Lagið skal vera 1-2 sinnum þvermál fræsins. Mjög smágerð fræ eru yfirleitt ekki hulin. Merkispjaldi (stungumiða) með nafni tegundar, hæð, blómlit og öðru því sem þið viljið skrá varðandi tegundina, er komið fyrir í pottinum. Að síðustu er vökvað yfir sáðílátin með fínum úða eða þau sett í vatnsbakka og látin draga í sig vatn þar til moldin er orðin rakamettuð.

Næsta skref er að koma pottunum fyrir á heppilegum stað meðan spírun fer fram. Breitt er dökkt eða mjólkurlitt plast (eða glerplata með dagblaði yfir) yfir sáðpottana. Þetta þjónar bæði þeim tilgangi að skyggja og halda jafnara hita og rakastigi að fræinu meðan það spírar.

Þegar fræin hafa spírað (eftir eina til þrjár vikur) verður að fjarlægja skygginguna. Koma þarf pottunum fyrir á björtum stað eða undir gervilýsingu (raflýsing ýmiskonar). Sólarljósið og dagsbirtan er ókeypis, en athuga verður að birtuþörf smáplantnanna er mikil og fræplöntur sem koma upp í febrúar eða mars þurfa töluverða viðbótarlýsingu. Verður þá að grípa til gervilýsingarinnar svokölluðu. Best er að nota viðurkennd blómaljós eða flúorperur séu blómaljós ekki fyrir hendi. Flúorljósum er komið fyrir 20-30 sm yfir plöntunum en mismunandi er hversu langt frá blómaljós eru höfð, og verður hver og einn að fara eftir þeim leiðbeiningum sem fylgja ljósunum. Náið samspil er milli ljóss og hita í ræktuninni. Sé hitinn hár og ljósmagn lítið þá teygjast plönturnar og verða renglulegar. Sé lýsing léleg má reyna að lækka hitastigið til að ná fram jafnari vexti (en hann verður þá mun hægari). Flestar tegundir þurfa lægri hita í framhaldsræktinni en í sáningunni, þannig að vel er nú hægt að komast af með 12-15 stiga hita. Passa verður vel að jarðvegurinn þorni aldrei alveg en það getur valdið því að smáplönturnar missi alla safaspennu og nái henni ekki upp aftur. Veslast þær þá upp á nokkrum tíma.

Dreifsetningin (priklunin).

Þegar plönturnar hafa myndað laufblöð rétt fyrir ofan kímblöðin er farið að huga að dreifsetningunni. Bakkar eru fylltir með góðri mold og hún þjöppuð þéttingsfast með bretti. Merkja má fyrir plöntunum með pinna og er hæfilegt bil milli plantna 5-7 sm. Bakki sem er 30x60 sm rúmar því 32-50 plöntur eftir því hvort við höfum 4x8 raðir eða 5x10.

Best er að smá rótarköggull fylgi hverri plöntu þegar henni er lyft varlega upp úr sáðpottinum með hjálp plöntuskeiðar eða Stórblómstrandi flauelsblóm í uppeldi priklpinna. Síðan er plantan sett ofan í holu í priklbakkanum sem áður hefur verið gerð með priklpinnanum. Plantan er sett töluvert dýpra en hún stóð áður, eða alveg upp að kímblöðunum. Séu plönturnar mjög smáar getur borgað sig að nota flísatöng við verkið (t.d. lóbelía), eða taka smáknippi með 3-4 plöntum saman, til að skaða viðkvæmt rótarkerfið sem minnst. Með pinnanum eða fingrum er moldinni síðan þjappað stinningsfast að rótunum. Mikilvægt er að priklunin gangi vel fyrir sig og athugið sérstaklega að láta rótarkerfið ekki þorna meðan á prikluninni stendur. Munið einnig að láta merkimiðann úr sáningunni fylgja með í bakkann og skrifa fleiri ef um fleiri bakka eða potta er að ræða.

Eftir priklunina er vökvað vel yfir bakkana og þeim komið fyrir einhvers staðar í skjóli frá beinni sól. Er plönturnar hafa komið sér vel fyrir í jarðveginum og rótarkerfið er orðið virkt, þá eru þær fluttar í meiri birtu, helst þar sem þeir njóta birtu frá öllum hliðum, annars verður að snúa þeim reglulega.

Toppun.

Þegar 3-4 vikur eru liðnar frá priklun má toppa plönturnar. Toppun leiðir til þess að plönturnar greina sig betur og verða lægri og þéttari. Miðað er við að klípa efsta brumið af stönglinum á þeim tíma er 3-4 blaðpör hafa myndast. Sumar tegundir eins og skrautnál (alísur) eru alveg þéttar frá rót, en aðrar mynda oft einn stöngul og ætti sérstaklega að huga að þeim þegar líður á vaxtartímann og toppa þær ef þörf krefur.

Almenn umhirða.

Umhirðan byggir á því (eins og áður hefur verið komið inn á) að finna rétt samspil ljóss, hita, vatns og áburðargjafar. Halda verður nokkuð jöfnum raka og hver og einn verður að hafa það nokkuð á tilfinningunni hversu mikið þarf að vökva í hvert skipti. Þegar plönturnar stækka eykst bæði vatns og áburðarþörfin. Þá er gott að vökva með 1 o/oo (eitt prómill = 1/1000) lausn af alhliða áburði í hvert sinn sem vökvað er. Sem dæmi má taka að ef notaður er fínmulinn uppleysanlegur áburður eins og t.d. Superba, þá má nota 10 g í 10 l af vatni, 100 g í 100 l o.s.frv. Þannig er sumarblómunum tryggð jöfn og góð næring allan uppvaxtartímann. Fylgjast verður grannt með meindýrum hverskonar s.s. lús og spunamaur, og sveppir í moldinni geta orðið hinir verstu skaðvaldar (sbr. áður). Útrýma verður öllu slíku strax og þess verður vart, áður en sjúkdómar eða meindýr ná því að valda óbætanlegum skaða á ræktuninni.

Tegundir.

Ýmsar tegundir sumarblóma koma til greina og verða hér taldar upp þær helstu. Flestar ef ekki allar fást í blómabúðum og blómamiðstöðvum hérlendis. Fjölbreytni, bæði í tegunda- og afbrigðavali gerir ræktunina spennandi og alltaf er hægt að prófa sig áfram með eitthvað nýtt.

Hér er valin sú leið að skipta tegundum upp í flokka eftir þeim tíma sem hentar að sá þeim á, og raða þeim síðan í stafrófsröð íslenskra heita.

Latneska heitið er þó yfirleitt á fræbréfunum, svo þau eru látin fylgja með í sviga fyrir aftan, og síðast er getið algengasta lits/lita tegundarinnar.

Febrúar.

Bláhnoða (Ageratum houstonianum) blá/hvít Bláhnoða (Ageratum houstonianum)

Brúðarauga (Lobelia erinus) blá

Fagurfífill (Bellis perennis) rauðir/hvítir

Járnjurt (Verbena x hybrida) blá

Ljónsmunnur (Antirrhinum majus) ýmsir litir

Silfurkambur (Senecio cineraria) grá blöð

Stjúpublóm (Viola x wittrockiana) ýmsir litir

Stúdentanellika (Dianthus barbatus) rauð/hvít

Mars.

Apablóm (Mimulus x hybridus) rauðbrúnflikrótt

Brár ýms. teg. (Chrysanthemum) ýmsir litir Mánafífill (Gazania splendens)

Eilífðarblóm (Helipterum roseum) rauð, hvít

Eilífðarfífill (Helechrysum bracteatum) ýmsir litir

Flauelsblóm (Tagetes patula) ýmsir litir

Garðakornblóm (Centaurea cyanus) blár

Glitberi (Silene coeli-rosea) fjólublá

Gullbrúða (Eschscholtzia californica) gulir

Hádegisblóm (Mesembryanthemum criniflorum) ýmsir litir

Ilmbaunir (Lathyrus odoratus) ýmsir litir

Mánafífill (Gazania splendens) ýmsir litir

Meyjablómi (Godetia grandiflora) rósrauð

Morgunfrú (Calendula officinalis) gul

Paradísarblóm (Schizanthus x wisetonensis) ýmsir litir

Skrautblæja (Gypsophila elegans) hvít

Skrauthjarta (Silene compacta) rauð, hvít

Sumarljómi (Phlox drummondii) ýmsir litir

Sumarstjarna (Aster chinensis) ýmsir litir

Sveipkragi (Iberis umbellata) hvítur

Tígurblóm (Mimulus tigrinus) flikrótt (gul og rauð)

Tóbakshorn (Petunia x hybrida) ýmsir litir

Valmúi ýms. teg. (Papaver) gulir

Vinablóm (Nemophila menziesii) blá

Apríl.

Aftanroðablóm (Lavatera trimestris) ýmsir litir

Fiðrildablóm (Nemesia strumosa) blandaðir

Ilmskúfur (Matthiola incana) ýmsir litir Aftanroðablóm (Lavatera trimestris)

Regnboði (Dimorphotheca sinuata) hvít, bleik

Skjaldflétta (Tropaeolum majus) gul, rauð

Skrautnál (alísur) (Alyssum maritimum) hvít, blá

Sumarlín (Linum grandiflorum) rauðir

Þorskagin (Linaria maroccana) ýmsir litir

Ræktun og hirðing sumarblóma.

Nú verður reynt í stuttu máli að gera grein fyrir því hvað verður um blómin í beinu framhaldi af sáningunni og prikluninni. Fyrst er aðeins fjallað um herðingu plantnanna, síðan um skipulag beða, undirbúning beða, útplöntun og að lokum um þá lágmarksumhirðu sem fylgir í kjölfarið.

Herðing.

Þegar plönturnar hafa verið í dreifsetningar­bökkunum í 3-6 vikur má umplanta stærri tegundum í 7-8 sm plast eða torfpotta. Flestar tegundir þola þó að standa í bökkunum fram til útplöntunar ef vaxtarrými er nóg.

Til þess að plönturnar verði ekki fyrir áfalli (t.d. vegna kulda) þegar þær eru settar út í garðinn verður að herða þær stig af stigi. Plönturnar eru því í fyrstu fluttar á kaldari stað í gróðurhúsinu (eða íbúðarhúsinu). Best er þó að setja þær í vermireit þar sem stjórna má hitastigi nokkurn veginn og hugsa má upp ferli sem gæti litið út eitthvað á þessa leið.

Sáning 18-20°C, 1 vika eftir spírun 15-18°C, 3-4 vika 10-15°C og síðan 5-8 vika 7-10°C. Hitastigið vísar til þess lágmarkshita sem plönturnar þola á hverjum tíma. Ef herðingin er framkvæmd á mjög stuttum tíma, þá blána plönturnar og nokkur stöðnun verður í vexti og þær eiga erfitt með að vinna vaxtatapið upp aftur.

Áætlun sem þessi er hér aðeins sett fram sem dæmi en auðvitað er ekkert hægt að alhæfa í þessum efnum, þar sem ræktunartími tegunda er mislangur og einnig eru aðstæður mismunandi hjá hverjum og einum ræktanda.

Skipulag beða.

Strax um veturinn má fara að huga að skipulagi beðanna miðað við það efni sem hSumarblómabeð með morgunfrú, skrautnál og hádegisblómi. ver og einn ætlar að planta út í sumarblómabeðin og hvers konar beð um er að ræða. Nota má sumarblóm á fjölbreytilegan hátt t.d. í kanta á fjölæringabeðum, í steinhæðir og hleðslur, til uppfyllingar í beð s.s. trjáa og runnabeð, í kassa og ker af ýmsum stærðum og gerðum og svona mætti lengi telja.

Atriði eins og staðsetning, stærð og lögun beða hafa nokkur áhrif á plöntunotkunina. Möguleikarnir virðast ótæmandi hvað þetta varðar. Það sem helst þarf að hafa í huga er að sumarblómin þurfa bæði sól og skjól og ætti fyrst og fremst að staðsetja beðin með tilliti til þeirra þátta. Annað sem hér má nefna er að hringlaga og þríhyrnd beð ættu að vera spölkorn frá byggingu til þess að brjóta upp reglulegan stíl hússins en aftur á móti geta ferhyrnd beð undirstrikað stílinn ef svo ber undir.

Allt fer þetta vissulega eftir smekk hvers og eins, hvort sem um er að ræða lögun beðanna eða stærð, en þegar að því kemur að raða plöntunum niður verður að taka tillit til þátta s.s. blómlits, vaxtarlags, blómlögunar, blaðlitar, blaðlögunar, krafna til vaxtarstaðar og umhverfis. Góð heild næst á beðið ef sem flest þessara atriða falla saman í eina heild.

"Hvernig á þá að gera fallegt blómabeð?" gæti einhver spurt. Svarið liggur alls ekki í augum uppi en ljóst er að það vefst mjög fyrir sumum en aðrir virðast hafa það í sér að spila vel úr því efni sem þeir hafa í höndunum.Sumarblómabeð austan Eyrarlandsstofu með ýmsum tegundum.

Hvað varðar litasamspil má setja fram þá höfuðreglu að blanda ekki saman of miklu af heitum og köldum litum. Því er plöntum sem blómstra heitum litum plantað á sólríka staði þar sem létt og bjart er yfir. Plöntum sem blómstra köldum litum skyldi aftur á móti planta í léttum skugga t.d. innan um sígrænan gróður eða undir stór og kraftmikil tré. Sterkustu litina s.s. sterkrautt og sterkblátt verður að nota með varúð til þess að þeir verði ekki of ríkjandi í beðinu og steli athyglinni frá öðrum litum.

Ekki er nóg að hugsa aðeins um fallega liti þegar skipulagt er. Hæð plantnanna og mismunandi blómgerð þeirra skiptir gífurlega miklu máli ef vel á að takast til. Haldgóð plöntuþekking er því nauðsynleg og byrjendur í garðrækt ættu að halda sig fremur við fáar en góðar tegundir til að byrja með.

Passa verður upp á það að plönturnar skyggi ekki hver á aðra. Þess vegna er lágvöxnum plöntum plantað í útkanta á beðum en síðan hækka plönturnar eftir því sem innar dregur í beðið. Með þessu móti næst nokkur dýpt í beðið en marflöt beð eru lítt spennandi.

Að lokum má geta þess að betri virkni fæst með því að planta nokkurri breiðu af hverri tegund (a.m.k. 0.5-1 ferm.) til þess að beðið virki ekki eins tætingslegt og litir koma skýrar fram en ef aðeins er plantað einum og einum einstakling af hverri tegund.

Úrval sumarblóma er mjög fjölbreytilegt og hægt er að fá fræpoka keypta í blómaverslunum og sá sjálfur eða kaupa tilbúnar plöntur í gróðrastöðvum að vorinu.

Til aðstoðar á vali má gera tilraun til að flokka sumar­blómin niður í hópa miðað við ýmis notkunarsvið, en gera má ráð fyrir að þarfir fólks séu mismunandi í þessu sambandi. Tiltekin eru dæmi um tegundir en innan tegundanna er síðan í langflestum tilfellum mikill fjöldi sorta, þar sem afbrigðileikinn kemur fyrst og fremst fram í mismunandi blómlitum.

Sumarblóm til afskurðar.

Flestir hafa gaman af afskornum blómum en mikill fjöldi sumarblóma hentar einmitt vel til þeirra nota. Ef notkunin er mjög mikil gæti jafnvel borgað sig að rækta nokkrar góðar tegundir í afmörkuðum reitum í garðinum.

Algeng blóm sem standa lengi í vasa innandyra eru m.a. ljónsmunnur, morgunfrú, kornblóm, nellikur, valmúi, sumarljómi, flauelsblóm, stjúpur og ýmsar tegundir af prestafíflum.

Sumarblóm í ker og kassa. Sumarblóm í upphækkuðu keri, hádegisblóm, silfurkambur, kornblóm og kínadrottning.

Mörg sumarblóm eru upplögð til útplöntunar í ker og kassa eða hengipotta við útidyr, dvalarsvæði eða skjólveggi. Helstu tegundir sem henta vel við slíkar aðstæður eru þær sem hafa hangandi eða útbreitt vaxtarlag t.d. skrautnál, brúðarauga, tóbakshorn, salvía, silfurkambur, fjóla, vinablóm, skjaldflétta og fleiri.

Til uppfyllingar í fjölæringabeð.

Tómarúm í fjölæringabeðum eða skrautblómabeðum yfirleitt er hentugt að fylla með sumarblómum. Gott er að eiga lager af pottaræktuðum sumarblómum sem hægt er að skella út fyrirvaralaust. Fjölæringabeð eða trjáa og runnabeð er einnig hægt að skipuleggja með það fyrir augum að planta í þau einhverju magni af sumarblómum árlega. Eru þá vísvitandi skildar eftir eyður fyrir sumarblómin og þannig lífgað verulega upp á beðið með litskrúði þeirra. Sem dæmi um plöntur sem henta til þessara nota eru m.a. sveipkragi, bláhnoða, konungaspori, kínadrottning, flauelsblóm og ýmsar tegundir af prestafíflum.

Sumarblóm í steinhæðina. Kínadrottning (Dianthus chinensis) hentar vel í steinhæðir

Tegundir sem þola nokkurn þurrk og léttan, framræstan ófrjóan jarðveg koma helst til greina. Nefna má tegundir eins og sveipkraga, brúðarauga, skrautnál, vinablóm, nellikur, sumarljóma, sumarlín og hádegisblóm í þessu sambandi.

Til annarra nota.

Ýmis önnur not má hafa af sumarblómum. T.d. er hægt að rækta blómin vegna ilmsins s.s. ilmbaunir og ilmskúf. Til þurrkunar henta mörg en þurrkunin fer þannig fram að blómleggurinn er fyrst skorinn eins langur og hægt er og blöð eru fjarlægð. Stilkarnir eru síðan bundnir saman í smá búnt og búntin síðan hengd upp til þerris á svölum stað þar sem loftræsting er í góð. Sem dæmi um blóm sem henta vel til þurrkunar má nefna t.d. sumarax, héraskott, skrauthafra, sólargull og eilífðarblóm. Ljónsmunnur (Antirrhinum majus)

Fleira mætti svo sem nefna, blóm í kanta, undirgróður og klifurplöntur en ekki verður farið nánar út í þá sálma hér plássins vegna.

Hver og einn verður prufa sig áfram, velja og hafna eftir sínum smekk og þörfum.

Undirbúningur beða.

Um leið og frost fer úr jörðu er kominn tími til að undirbúa beðin fyrir útplöntun. Sumarblóm eru kröfu­hörð á næringu og verður að gefa góða grunngjöf af áburði að vorinu áður en beðin eru stungin upp.

Árleg grunngjöf getur verið í formi lífræns eða ólífræns áburðar og er nokkuð jöfn blanda þessara tveggja áburðarefna best.

Þekja má beðið með 5-7cm lagi af lífrænni mold eða rotnuðum búfjáráburði áður en uppstunga fer fram og tilbúnum áburði er síðan stráð yfir þetta lag. Hentug hlutföll aðalefna eru N (köfnunarefni) 5%, P (fosfór) 10% og K (kalí) 5% (eða í svipuðum hlutföllum). Lítið köfnunarefni til þess að blaðvöxtur verði ekki of mikill á kostnað blómgunar. Hátt hlutfall fosfórs til að auka rótarvöxt í byrjun og síðar blómgun og kalí til styrktar stoðvefjum og til aukinnar blómgunar. Hentugar tegundir áburðar sem fást hérlendis eru t.d. Blákorn, Græðir1 og Græðir1a. Nota má u.þ.b. 80 gr á fermetra sé ekki notaður neinn lífrænn áburður en helmingi minna sé notað lag af lífrænum áburði eins og áður var lýst.

Allt svæðið er nú stungið upp og beðið síðan sléttað með garðhrífu.

Beð sem liggja í eða að grasflöt eru síðan kantskorin með kantskera eða spaða, helst eftir snúru eða réttskeð ef hægt er að koma því við. Allar línur verða að vera vel skarpar til þess að beðið afmarkist vel frá grasinu.

Útplöntun.

Aðal útplöntunartíminn er frá maílokum til júníloka, þegar öll frosthætta er liðin hjá. Pottaræktuðum plöntum má svo sem planta út allt sumarið en ef einhver þroski á að nást er best að byrja útplöntun eins fljótt og veðurfar leyfir.

Útplöntunin hefst síðan á því að hver planta er losuð varlega úr pottinum eða bakkanum og reynt að halda rótarkerfinu eins óhreyfðu og kostur er. Séu plöntur í óhólfuðum dreifsetningarbakka er losað um allar plönturnar í einu með því að slá bakkanum létt við jörð. Plönturnar eru síðan aðskildar með beittum hníf og reynt að fá eins stóran rótarmassa og hægt er með hverri. Plöntunum er síðan plantað út í því sem næst sömu dýpt og þær stóðu áður eða örlítið dýpra. Bil milli plantna getur verið mismunandi eftir tegundum en viðmiðunarreglan er sú að hafa bilið u.þ.b. helming endanlegrar hæðar. Undantekning frá þessu eru ýmsar tegundir sem hafa mjög útbreitt vaxtarlag en þeim ætti að planta út með með millibili sem svarar til endanlegrar hæðar eða með 10-20 sm bili í flestum tilfellum (t.d. alísur, hádegisblóm, lóbelíur o.fl.).

Við útplöntunina er oftast notuð plöntuskeið eða guðsgafflarnir kjósi fólk það fremur. Fyrst er gerð hæfilega stór hola fyrir rótarmassa plöntunnar og plantan sett í holuna. Plöntunni er síðan hagrætt í holunni og mold þrýst þéttingsfast að rótarkögglinum. Að lokinni útplöntun er síðan vökvað vel yfir beðið. Mjög mikilvægt er að halda jöfnum og góðum raka í beðinu fyrstu dagana eftir útplöntun meðan plönturnar eru að koma sér vel fyrir í jarðveginum.

Umhirða eftir útplöntun.

Sé umhirða lítil eða engin ná sumarblóm litlum þroska og verða ekki sá gleðigjafi sem til var ætlast. Þó má segja að umhirðan þarf ekki að vera sérlega tímafrek ef rétt er haldið á spöðunum.

Reyta þarf illgresi úr beðum af og til og er mælt með því að gera það með höndum (ekki arfasköfu) til að skaða ekki viðkvæma leggi eða grunnt rótarkerfi.

Einnig þarf að vökva sumarblómin eftir þörfum, sérstaklega í miklum þurrktímabilum. Taka má mið af jarðveginum á milli plantnanna. Þegar hann er orðinn vel þurr, er kominn tími til að taka fram garðslönguna og vökva rækilega yfir beðið. Betra er að vökva mikið í einu og með nokkuð löngu millibili fremur en að úða nokkrum dropum daglega sem gera lítið annað en að kæla niður plönturnar og rétt væta yfirborðið. Mælt er með því að vökva snemma morguns, þar sem kæling yfir hádaginn á aðalvaxtartíma plantnanna dregur verulega úr vexti þann daginn.

Til að koma í veg fyrir rakatap (útgufun) og spírun illgresisfræja getur verið gott að þekja beðið með einhSumarblóm í hálftunnu, m.a. ljónsmunnur, flauelsblóm, brúðarauga og fl. tegundir. verjum lífrænum efnum. Þessi aðgerð kemur þeim sérstaklega til góða sem hafa takmarkaðan tíma til garðræktarstarfa eða eru í fríi yfir einhvern hluta sumarsins. Algeng þekjuefni eru t.d. mosi, safnhaugamold, sag, börkur, kurl, moð, hálmur, vikur o.fl. Lagið verður að vera a.m.k. 2.5 sm til þess að eitthvað gagn sé í því og jafnt yfir allt beðið. Stærri beð getur því verið gott að þekja áður en útplöntun fer fram vilji fólk á annað borð beita þessari aðferð. Helsti ókosturinn við þakninguna er sá að smáverur jarðvegsins fjölga sér mjög og nota upp köfnunarefnisinnihald hans. Þegar þetta gerist sést það greinilega á plöntunum, því laufblöð gulna og viðbótargjöf af köfnunarefnisríkum áburði er nauðsynleg. Er þá best að vökva með gjörleysanlegum köfnunarefnisríkum áburði t.d. kalísaltpétri.

Annars má segja almennt um sumarblóm að þau eru mjög kröfuhörð á næringu allan ræktunartímann enda í blóma meira og minna allt sumarið. Það er því nauðsynlegt að gefa þeim reglulega næringu með alhliða áburði sem inniheldur auk aðalefna ýmis snefilefni. Hentugur áburður er t.d. Substral eða Superba áburður, sem er fínkorna en gjörleysanlegur í volgu vatni. Blanda má um 10 gr í 10 l garðkönnu og vökva yfir beðin, eða 100 gr í 100 lítra tunnu og vökva síðan úr henni svo dæmi séu tekin. Ýmiskonar stofublómaáburður kemur einnig til greina, sérstaklega ef beðin eru lítil. Vökva má á hálfsmánaðar til þriggja vikna fresti til að tryggja það að ekki verði skortur á næringarefnum og plönturnar blómgist jafnt og þétt allt sumarið.

Fyrst minnst var á blómgunina er mikilvægt að minna á það gildi sem það hefur, að fjarlægja öll blóm sem hafa lokið blómgun ásamt skemmdum blómum eða blómhlutum. Þessi aðgerð miðar að því, að hleypa blóminu ekki í fræþroska sem tekur mikla orku frá blómguninni. Þar að auki verða beðin öll miklu snyrtilegri sé þessari afknúppun fylgt reglulega eftir.

Nauðsynlegt umhirðuatriði er síðan að kantskurður og klipping graskanta verður að fara fram eftir þörfum yfir sumarið til að beðin skeri sig betur út úr umhverfinu og renni ekki saman við grasflötina.

Lokaorð.

Hér hefur verið stiklað á stóru hvað varðar uppeldi, útplöntun og hirðingu sumarblóma. Vonandi hafa línur þessar vakið áhuga einhvers á að prófa sig lítillega áfram við sumarblómaræktun. Munið bara að enginn verður "óbarinn biskup" í þessum efnum, fremur en svo mörgum öðrum er lúta að garðræktinni og minni háttar afföll eru eðlileg í ræktun jafn viðkvæmra jurta og sumarblómin eru.

Björgvin St.Til baka

Lystigarður Akureyrar - Eyrarlandsstofa - Sími: 462 7487 - Netfang: gkb@akureyri.is