ŮurÝ­ur Gu­mundsdˇttir - RŠtur
Ég geng um skrúðgarða borgar
og blómin horfa á mig
litríkum framandi augum
og ilmur þeirra er alltaf nýr

Í fjarska situr fölblá gleymmérei
á fötum lítils barns

Því blágresi, holtasóley og steinbrjótur
voru blóm bernsku minnar

Og rætur þeirra
verða alltaf mínar

Frˇ­leikur
Í greinasafni er að finna margvíslegan fróðleik um ýmislegt sem lýtur að garðyrkju. Greinaflokkar eru valdir hér að neðan. Undir hverjum flokki eru síðan fjölmargar greinar eftir ýmsa höfunda.

Góða skemmtun.
Uppßhalds sumarblˇmin mÝn

Sumarblóm eru til ýmissa hluta nýtileg í garðinum og skreyta hann með ríkulegri blómgun allt sumarið. Þau má meðal annars nota í ker og kassa, til uppfyllingar í fjölæru beðin eða steinhæðina og ekki má gleyma að fjölmörg þeirra henta vel til afskurðar og eru þá bæði til prýði innan húss og utan.

Að þessu sinni ætla ég að fjalla nokkuð um þau sumarblóm sem eru í hvað mestu uppáhaldi hjá mér. Ekki svo að skilja, að það séu ekki fleiri en þessar tegundir sem eru mjög ofarlega á óskalistanum á ári hverju.

Meyjablómi (Godetia grandiflora) er nokkuð þekkt sumarblóm hérlendis og afar auðvelt í ræktun. Nútíma yrki eru krossar (kynblendingar) milli nokkurra tegunda frá vestur hluta N-Ameríku og kynnt í Evrópu þegar á 19 öld.

Tegundin er nokkuð runnkennd, upprétt og að hluta til dálítið útafliggjandi, 25-75 sm á hæð eftir yrkjum og 20-30 sm í þvermál. Blöðin eru lensulaga og blómin stór í þéttum stuttum klasa.

Þeim er sáð inni í gróðurhúsi í mars við 16-20°C og spírun á sér stað á 5-10 dögum. Þegar smáplöntur eru orðnar hæfilega stórar er þeim priklað og smáplöntur ræktaðar áfram í 10-12 sm pottum við heldur lægri hita inni í gróðurhúsi. Þeim er síðan plantað út í garð þegar jarðvegur er orðinn hæfilega hlýr um miðjan júní. Hentar vel í steinhæðir, blómabeð og í ker og kassa. Meyjablómi þrífst best í sendnum ekki of frjóum jarðvegi og framræsla verður að vera í góðu lagi. Best í sól en þolir vel léttan skugga. Meyjablóm eru veðurþolin en viðarkenndur stöngullinn á það til að brotna við rótarháls í roki.

Mjúkir tónar rauðra, bleikra og laxableikra og hvítra lita eru algengastir og fínleg blómin falla vel inn í alls kyns útplantanir. Þau henta líka vel til afskurðar og fáeinir stönglar í vasa er nóg til að búa til fallegan blómvönd sem stendur í dögum saman.

Hefðbundin yrki eru ‘Cattleya’ sem er orkídeu-bleik, ‘Duchess of Albany’ hvít og ‘Cybil Sherwood’ laxableik. Af öðrum yrkjum má nefna ‘Grace’ sem er þekkt yrki úr seríu sem nefnd er ‘Satin’ serían en yrki úr þeirri seríu henta sérlega vel til afskurðar.

Kínadrottning (Dianthus chinensis). Er í raun fjölær tegund frá Kína eins og latneska heitið ber með sér en ávallt ræktuð sem einær hérlendis. Hún á það þó til að lifa af veturinn og blómgast aftur næsta sumar og þá enn meira en heldur síðar um sumarið. Myndar lágar þéttar þúfur, 20-30 sm á hæð og annað eins í þvermál. Blöðin eru langlensulaga og ydd og blómin í lausum klösum, oftast dálítið ilmandi.

Sáð inni í gróðurhúsi í mars við 16-20°C og spírar á 7-14 dögum og forræktuð inni fram á vor.

Hentar vel í steinhæðir, í fjölær beð og í hver konar ker og kassa. Blómgast síðan stöðugt frá júlí og fram á haust sérstaklega ef dauðu blómin eru fjarlægð jafnóðum.

Yrki eru fjölmörg og ekki hægt að telja þau öll upp hér. Sem dæmi má nefna gömul yrki eins og ‘Princess’ , ‘Telestar’, ‘Snowflake og ‘Fire Carpet’ og af þeim nýrri t.d. ‘Black and White Minstrels’ sem er með fyllt purpurarauð blóm með silfurhvítum strípum. Þess má og geta að kínadrottning er ágæt til afskurðar (í minni blómavasa) og stendur lengi.

Hádegisblóm (Dorotheanthus bellidiformis – syn.: Mesembryanthemum criniflorum) er ættað frá Suður – Afríku og ræktað hér sem sumarblóm. Það er lágvaxið með útbreitt vaxtarlag, aðeins 8-15 sm á hæð en getur orðið allt að 20 cm í þvermál. Lítur út eins og þykkblöðungur og þekur vel sé það í góðum þrifum. Blöðin eru mjó, spaðalaga, kjötkennd og gljáandi. Blómin eru stór, stakstæð og líkjast nokkuð körfublómum. Blómlitir eru ýmsir en algengust eru blandaðir litir þar sem koma fram rauðir, gulir, bleikir, appelsínugulir og jafnvel hvítir litir. Hægt er að fá yrki í hreinum litum.

Sáð inni í mars og spírar á 5-10 dögum við 18-21°C. Síðan forræktað áfram inni í gróðurhúsi við 15°C fram á vor en eftir herðingu er því síðan plantað út í garðinn. Þeim er afar illa við vætu og því er gott að bæta vel af sandi og vikri í jarðveginn til að tryggja góða framræslu. Hentar best í ker og kassa hverskonar og ómissandi í steinhæðina. Munið bara að tryggja þeim sólríkan stað í garðinum. Þegar þau hafa náð fullum þroska eru þau algjört augnakonfekt á sólríkum sumardögum og næstum því óraunveruleg í okkar ísa kalda landi þar sem blómhafið er engu líkt. Blómin opnast aðeins í sól en það kemur ekki að sök því glansandi græn blöðin bæta það upp.

Hádegisblóm þolir smá frost og er í blóma langt fram á haust.

Stórblóma yrki eins og ‘Lunette’ (einlitt, ljósgult) eru þó ekki alveg eins þolin.

Brúðarstjarna (Cosmus bipinnatus) sem ættuð er frá Mexíkó er glimrandi góð tegund í ker og kassa á sólríkum suðursvölum. Einnig hentar hún vel inn í fjölær beð en er sennilega full há í steinhæðir. Ágæt til afskurðar sé hún tekin inn í þann mund sem blómið er að opnast.

Tegundin er fremur hávaxin eða 50-120 sm eftir yrkjum en fremur mjóslegin eða um 25 - 30 sm í þvermál, yfirleitt marggreinótt með ljósgræn tvífjaðurskipt, fínleg blöð. Blómin eru stór, stakstæð á löngum blómstilk. Algengustu blómlitir eru bleikir rauðir og hvítir. Henni er sáð inni í mars við 18-20°C og spírar á 5-8 dögum. Henni er síðar priklað í 10-12 sm potta og ræktuð áfram fram á vor. Með toppun má fá lægri og þéttari plöntur og fleiri blóm. Hert og síðan plantað út í garðinn. Í blóma frá byrjun júlí og alveg fram í frost. Munið að klippa burt visin blóm jafnóðum og þau visna. Jarðvegur má ekki vera of frjór því það kemur niður á blómgun. Tegundin þrífst best í fremur ófrjóum sendnum jarðvegi.

Brúðarstjarna kom fyrst fram á sjónarsviðið í Evrópu á 18 öld og var nokkuð vinsælt á þeim tíma. Gömlu yrkin voru yfirleitt nokkuð há, en nútíma yrki eins og ‘Sonata’ (blandaðir litir) eru lægri og þola betur rigningu og vind eins og við eigum að venjast hérlendis. Vöxtur er stundum hægur framan af, sérstaklega ef sumarið er í svalara lagi og jarðvegshiti lágur. En eftir að plönturnar ná sér á strik eru þær engu líkar og bera þá fjöldann allan af stórum, stórglæsilegum blómkörfum.

Aftanroðablóm (Lavatera trimestris) er ættað frá Miðjarðarhafssvæðinu en það vex villt í klettóttum brekkum frá Portúgal til Grikklands. Það er upprétt, gjarnan dálítið greinamikið. Plöntur eru frá 30-120 sm háar eftir yrkjum og 30-40 sm í þvermál. Blöðin eru kringlótt, handflipótt. Blómin eru stór 6-10 sm í þvermál á lögum blómstilkum.

Blómlitir eru bleikir, rósrauðir og hvítir, svolítið satínkennd og gjarnan með strípum eða dökkum æðum í blóminu. Hentar best í blönduð beð, sumarblómabeð og nærri miðju í stærri ker og kassa. Er sérlega gott til afskurðar.

Sáð inni í apríl og spírar á 7-12 dögum við 15-21°C. Forræktað inni í 10-12 sm pottum við 12-15°C fram á vor en eftir herðingu er því síðan plantað út í garðinn á sólríkan stað. Best í meðalfrjóum jarðvegi þar sem framræsla er í góðu lagi. Þolir ágætlega vind og regn en hærri yrki þurfa stuðning.

Ný og endurbætt yrki eru gjarnan lægri og þéttari en hreina tegundin. Af góðum yrkjum má nefna ‘Silver Cup’ sem er skærbleikt, ‘Pink Beauty’ fölbleikt, ‘Salomon Beauty’ laxableikt, ‘Ruby Regis’ sem er kirsuberjableikt og af allra nýjustu yrkjum má nefna ‘Dwarf White Cherub’ sem er hvítt og verður aðeins um 30 sm á hæð.

Í stuttu máli eitt allra fallegasta sumarblómið sem er í ræktun hérlendis, bæði harðgert og blómviljugt.

Brúðukragi (Brachycome iberidifolia)er tiltölulega nýtt sumarblóm í ræktun hérlendis. Það er ættað frá Ástralíu og myndar lágar þéttar breiður grannra stöngla. Verður aðeins um 20-30 sm á hæð og 15-25 sm í þvermál. Blöðin eru fínskipt og blómin fínleg körfublóm á grönnum blómleggjum. Helstu blómlitir eru blár, purpurablár og hvítur.

Hentar vel í blómabeð, sem kantblóm, í steinhæðir, í ker og kassa og hengikörfur af ýmsum gerðum.

Forræktað inni. Sáð í mars og spírar á 5-14 dögum við 18-21°C. Síðan dreifsett í bakka eða potta og ræktað þannig áfram fram á vorið. Hert áður en það er sett á endanlegan stað í garðinum. Best í fullri sól í frjóum, vel rakaheldum jarðvegi.

Blómgast um 8-10 vikum frá sáningu og hefur reynst vel í alla staði. Kemur best út í stórum breiðum eða sem kantblóm.

Helstu yrki eru ‘Purple Splendor’. ‘Blue Splendor’ og ‘White Splendor’ og eru þau yfirleitt fáanleg hérlendis. Eitt sérkennilegt nýtt yrki má nefna sem heitir ‘Blue Star’ en það er með upprúlluðum, stjörnulaga geislablómum.

Mánafífill (Gazania hybr.) á sín náttúrulegu heimkynni í Suður – Afríku. Hann er í raun fjölær planta en ræktuð sem einær hérlendis. Hefur verið kynblönduð mikið í gegn um tíðina og þau yrki sem mest eru ræktuð í dag líkjast lítið forfeðrunum. Myndar þéttar þýfðar hvirfingar, þykkra laufblaða sem eru aflöng og fjaðurflipótt, dökkgræn á efra borði en hvítloðin á því neðra. Blómin eru stór, stök á löngum blómstilkum og blómlitir eru gulir, appelsínugulir, rauðir, og bleikir. Hann verður um 20 sm á hæð og annað eins á breidd. Hentar best í jaðra blómabeða, í steinhæðir, sem þekjuplanta og er upplögð í ker og kassa af ýmsum stærðum og gerðum.

Forrækaður inni og sáð í mars og spírar þá á 5-7 dögum í myrkri við 16-18°C. Forræktuð áfram við 16°C fram á vor. Athugið að ungar plöntur þurfa strax mikið pláss til að þroskast vel og ætti því að rækta í 10-12 sm pottum. Hertar fyrir útplöntun sem á sér stað strax og jarðvegur hefur náð góðum hita að vori eða í kring um 17. júní. Léttur, vel framræstur jarðvegur á best við hann og þolir illa mikla bleytu. Verður að vera í góðu skjóli til að þrífast vel þar sem mörg yrkin eru í viðkvæmara lagi fyrir íslenskar aðstæður.

Blómin lokast að næturlagi og því er takmarkað gagn af tegundinni til afskurðar. Blómgast vel og lengi fram á haustið og þolir ágætlega fyrstu haustfrostin. ‘Sundance’ er sennilega það afbrigði sem þolir hvað best okkar rysjóttu veðráttu en auðvitað má nefna fjölmörg önnur yrki sem þrífast vel í sól og skjóli. Þar á meðal eru nýjustu yrki mánafífils sem eru stórkostleg og hafa mjög framandi útlit. Skær gul, rauð eða appelsínugul blómin eru gjarnan með allskyns beltum af öðrum litum í blóminu og eru þá litir eins og bronslitur, brúnn, svartur eða grænn eða blanda þeirra til í dæminu.

Ljónsmunnur (Antirrhinum majus) hefur ávallt verið í uppáhaldi hjá mér þar sem hann er mjög harðger og klikkar ekki í svölustu sumrum. Hann er í raun fjölær planta sem upprunnin er á Miðjarðarhafssvæðinu en er ræktuð hérlendis sem sumarblóm. Hann hefur verið mikið kynbættur í gegn um tíðina og er því mjög breytilegur hvað varðar hæð og blómliti. Hæðin getur verið allt frá 10 sm og upp í 90 sm eftir yrkjum og þvermálið er yfirleitt í kring um 15-20 sm. Stönglar eru stinnir og yfirleitt nokkuð greinóttir. Blöðin eru lensulaga – ávöl. Blómin eru í löngum klasa, yfirleitt litfögur í blönduðum litum þar sem flestra lita gætir ef undan eru skildir dökkbláir litir.

Fjölgað með sáningu sem þarf að eiga sér stað þegar í febrúar eða byrjun mars (blómgast u.þ.b. 14 vikum frá sáningu). Spírar á 7-14 dögum við 18-20°C og ekki á að hylja fræ í sáningu. Forræktuð áfram við 10-16°C fram á vor og ekki sakar að toppa plönturnar einu sinni á tímabilinu til að fá þær þéttari og lægri. Þrífst best í sól eða léttum hálfskugga og frjór, vel framræstur, sendinn jarðvegur hentar honum vel. Góð tegund í mitt sumarblómabeð og síðan má raða lægri tegundum í kring. Hentar einnig vel í ker og kassa og er einnig góður til afskurðar.

Gríðarlegur fjöldi yrkja er í ræktun en þau sem henta okkur best eru þau í lægri kantinum en af þeim má nefna ‘Sonnet’ og ‘Monarch’ -seríurnar. ‘Floral Carpet’, Magic Carpet’ og ‘Floral Showers’ eru vel þekkt lágvaxin yrki sem henta vel í beð og í ker og kassa.

Aðrar prýðilegar tegundir sem vert væri að geta eru fjölmargar, en þær fá ekki neina umfjöllun hér. Það eru til dæmis stjúpublóm, fjólur, silfurkambur, alísur, brúðarauga, paradísarblóm, tóbakshorn og járnjurt – allt gamalgróin sumarblóm og fleiri mætti svo sem nefna. Hugsanlega fá þær tegundir svipaða umfjöllun að ári.

BSt - Gróandinn

- mars 2002

Til baka

Lystigarður Akureyrar - Eyrarlandsstofa - Sími: 462 7487 - Netfang: gkb@akureyri.is