Málsháttur
Lengi býr að fyrstu gerð.
Fróđleikur
Í greinasafni er að finna margvíslegan fróðleik um ýmislegt sem lýtur að garðyrkju. Greinaflokkar eru valdir hér að neðan. Undir hverjum flokki eru síðan fjölmargar greinar eftir ýmsa höfunda.

Góða skemmtun.
Hvernig á ađ ţurrka plöntur

Notkun þurrkaðra blóma og grasa hefur aukist mjög á undanförnum árum. Þurrblómaskreytingar geta enst ótrúlega lengi og haldið miklu af upprunalegum lit blómanna. Með góðu hugmyndaflugi má segja að úrvalið af bæði villtum og ræktuðum garðplöntum sé næstum ótakmarkað. Í þessari grein verður lýst í stuttu máli aðferðum við þurrkunina og nokkrum góðum tegundum sem henta vel til þurrkunar.

Hvaða tegundir henta vel til þurrkunar.

Hugtakið "þurrkuð blóm" þarfnast e.t.v. nánari útskýringa. Raunhæft er að skipta tegundum í nokkra flokka eftir eiginleikum þeirra til þurrkunarinnar.

1. Í þennan flokk falla ekta eilífðarblóm. Sem dæmi má nefna t.d. sólargull (Helichrysum bracteatum) og Pappírsblóm eða eilífðarblómið (Xeranthemum annuum).

2. Blóm sem halda formi og litum lengi eftir þurrkun. Sem dæmi má nefna skrauthala (Amaranthus), riddaraspora (Delphinium), gullhrís (Solidago) og brár (Chrysanthemum).

3. Plöntur sem eru með fallega fræbelgi eða form sem eru falleg eftir að blómgun lýkur. Dæmi eru t.d. Nigella damascena (Jómfrúin í því græna), dill o.fl.

4. Plöntur með sérlega falleg blöð t.d. burknar, lambseyra ofl.

5. Grös og starir. T.d. tegundir af vinglum (Festuca) og héraskott (Lagarus ovatus) og mörg fleiri.

Söfnun.

Aðaluppskerutíminn er að haustinu en hægt er að tína eitt og annað svo að segja allt sumarið. Hvað sem tegundum líður er best að vinna að söfnum á þurrum heitum degi eftir að döggin hefur þornað á plöntunum. Þegar safnað er fersku efni er nauðsynlegt að rífa blöðin af, sérstaklega ef þau eru þykk og safarík. Séu plönturnar með létt blaðverk og fremur þurrt er ekki nauðsynlegt að eyða tíma í þetta á þessu stigi en hætt er við að eftir þurrkun verði blöðin það brothætt að þau þoli ekki hið minnsta hnjask.

Þurrkun á snúrum (upphenging).

Plöntunum er safnað í hæfilega stór búnt sem bundin eru saman með teygju, bandi eða vír helst á þann hátt að herða meði aðhaldið á þurrktímanum. Stönglar krumpast eitthvað í flestum tilfellum. Plönturnar eru síðan hengdar upp á snúru á þurrum, dimmum stað með góðri loftræstingu. Þessi aðferð er notuð við plöntur sem er auðvelt að þurrka s.s. eilífðarblómin, grastegundir og plöntur sem eru með svo stór og þung blóm að stilkurinn heldur þeim ekki uppréttum.

Aðrar aðferðir.

Þurrkun í krukkum er fyrst og fremst notuð á plöntur með stífa stöngla og gjarnan trjákennda og fræhirslur eða blóm eru þannig að þær hneigja lítið eða ekki höfuðið þrátt fyrir þurrkunina. Dæmi má nefna í þessu sambandi júdasarpening og vallhumal. Að leggja plönturnar til þurrkunar á hreint og þurrt undirlag er önnur aðferð sem má nota á plöntur með fremur viðkvæma stöngla. Best henta tegundir með flatt vaxtarlag s.s. grastegundir. Ókosturinn er helst sá að nokkuð mikið pláss þarf til þurrkunarinnar þar sem ekki er ráðlegt að stafla tegundum vegna þess hversu mikill hluti getur þá krumpast og eyðilagst. Að síðustu má nefna þurrkun á vaxtarstaðnum en það felst fyrst og fremst í því að leyfa plöntunum að ljúka alveg vexti og draga úr sér allan safa og klippa þær síðan í skreytingar síðla hausts. Yfirleitt eru það fræhirslur eða blómskipanir (formið) ýmiskonar sem er hentugt að safna á þennan hátt.

Varðveisla.

Hversu vel litirnir endast í þurrblómaskreytingunum fer eftir því ljósi sem á þá falla. Þeim mun minni birta, þeim mun lengur endast upprunalegir litir og geta þeir þá enst í fleiri ár. Ryk safnast í vendina og gerir þá gráleita með tímanum. Hægt er að endurnýja litina í gömlum vöndum með því að bæta inn í þá ferskum litum árlega eða á tveggja ára fresti. Einnig má varðveita vendi eða einstakar tegundir í gegnsæjum plastpokum eða vel merktum bréfpokum og grípa síðan til þeirra eftir þörfum.

BSt 1993

Til baka

Lystigarður Akureyrar - Eyrarlandsstofa - Sími: 462 7487 - Netfang: gkb@akureyri.is