Ëlafur Jˇhann Sigur­sson - ┴ vordegi
Grundin eignast gullinn fífil,
geislafingur hlýir strjúka
lambakóng með lítinn hnýfil,
lambagrasið rauða og mjúka.

Vappar tjaldur, vellir spói,
verpir í broki mýrispýta.
Bráðum kveikir fenjaflói
fífublysið mjallahvíta.

Bráðum mun í morgunstillu
meðan þokan kveður dranga
ljósberi hjá lágri syllu
lyfta kolli til að anga.

Blíða daga, bjartar nætur
bugðast á með tærum hyljum
eftir laut sem litlir fætur
lásu forðum berum iljum.


Frˇ­leikur
Í greinasafni er að finna margvíslegan fróðleik um ýmislegt sem lýtur að garðyrkju. Greinaflokkar eru valdir hér að neðan. Undir hverjum flokki eru síðan fjölmargar greinar eftir ýmsa höfunda.

Góða skemmtun.
Grˇ­urofnŠmi
Gróðurofnæmi.
Hér á landi þjást um 7 % landsmanna af svokölluðu gróðurofnæmi eða frjókornaofnæmi.
Á hverju ári fá fjölmargir Íslendingar sjúkdómseinkenni sem lýsa sér í langvarandi nefrennsli, hnerra og þrota í augum. Flestir fá þessi einkenni á vorin eða snemma sumars og geta þau varað meira og minna allt sumarið. Ekki er ósennilegt að margir flokki slík sjúkdómseinkenni undir hið landlæga kvef sem allir kannast við. Við nánari athugun kemur þó oft í ljós að hér er um ofnæmi að ræða. Frjókornaofnæmi eða gróðurofnæmi er algengasti ofnæmisvaldurinn hér á landi og má ætla að um 6 - 7% allra Íslendinga fái einhvern tímann á ævinni slíkt ofnæmi.
Frjókorn grasa eru helsti ofnæmisvaldurinn hér á landi. Frjókornin berast út í andrúmsloftið og setjast að í slímhúðinni í nefi og augum fólks. Þau eru um 30 micron (0,03 mm) í þvermál og berast um andrúmsloftið með vindi. Grösin eru vindfrjóvguð og gefa því frá sér mikið af frjókornum sem geta borist með vindinum langar leiðir, jafnvel tugi kílómetra. Þess vegna geta ofnæmiseinkenni komið fram á stöðum þar sem gróður er lítill, ef vindáttin hefur borið frjókornin þangað. Einkenni um grasofnæmi byrja nokkuð missnemma hér á landi vegna breytilegs tíðarfars. Oftast eru einhver einkenni byrjuð um miðjan júní en ná hámarki í júlí eða byrjun ágúst. Þegar árferði er svalt færast þessi tímamörk lengra fram á sumarið. Erlendis frjóvgast gróður mun fyrr en hér á landi og því lýkur gróðurtímabilinu einnig fyrr. Í nágrannalöndum okkar er birki einn aðalofnæmisvaldurinn vegna útbreiðslu þess. Hér á landi er ekki það mikið um birki að það nái að dreifa verulegu magni frjókorna, nema þá á litlum afmörkuðum svæðum. Frjókorn birkisins eru um 20 micron í þvermál og því mun léttari en frjókorn grasanna. Þau geta því borist mun lengri leiðir með ríkjandi vindátt. Rétt er að komi fram að víða erlendis eru starfræktar rannsóknarstöðvar líkt og veðurathugunarstöðvar hér á landi. Þær safna upplýsingum um frjókorn í andrúmsloftinu og útvarpa þeim með veðurfréttum. Á þann hátt geta sjúklingar með frjókornaofnæmi fengið að vita hvort líklegt sé að þeir fái einkenni næsta sólarhringinn og fengið viðeigandi lyfjameðferð. Hér á landi er slík þjónusta ekki fyrir hendi. Auk þess eru ekki til neinar gagnlegar upplýsingar um dreifingu og magn frjókorna í andrúmsloftinu. Sú þekking sem er til staðar hér á landi er fengin með því að húðprófa ofnæmissjúklinga með ofnæmisupplausn frá fjölda mismunandi gróðurtegunda. Þess vegna er viss hætta á að til séu jurtir og annar gróður sem valdi ofnæmi án þess að það sé vitað.
Auk þeirra tegunda sem þegar hafa verið nefndar má geta þess að túnfífill og baldursbrá geta valdið ofnæmi hér á landi. Þessar tegundir eru frjóvgaðar af skordýrum og gefa frá sér fremur lítið af frjókornum. Þótt ofnæmi fyrir þeim sé nokkuð algengt eru einkennin lítil og þýðing þeirra ekki teljandi nema við vissar aðstæður t.d. þegar ofnæmissjúklingur liggur í blómabeði eða þegar blómin eru tekin inn í hús.
Ofnæmistíminn hér á landi er mun seinna á ferð hér en víða erlendis og því ættu þeir sem haldnir eru frjókornaofnæmi að fara í sumarleyfisferðir seinni hluta sumarsins. Þannig stytta þeir ofnæmistímann hér heima og komast jafnframt hjá því að fá ofnæmiseinkenni erlendis.
En hver eru helstu einkenni frjókornaofnæmis? Þau byrja þau oft með nefrennsli, hnerra, augnrennsli og kláða í augum. Margir halda því að um kvefpest sé að ræða þar sem einkennin eru mjög svipuð. Oft fylgir ofnæminu kláði í nefi og augum og mætti oft greina þessi einkenni hjá börnum ef þau nudda stíft augun með báðum höndum. Þá geta einnig fylgt útbrot og kláðabólur í andliti. Litlir strákar sem haldnir eru frjókornaofnæmi fá oft kláða á fótleggi eftir fótboltaleik á grasbala. Ef frjókornaofnæmi hefur varað í nokkurn tíma án þess að ekkert sé að gert fylgir asmi í kjölfarið með tilheyrandi andþrengslum.
Meðferð við ofnæmi aðallega byggjast á lyfjameðferð. Í upphafi er sannprófað með sérstöku ofnæmisprófi hvort um gróðurofnæmi sé að ræða. Þegar niðurstöður liggja fyrir er sjúklingnum oftast gefin sérstök ofnæmislyf sem reynst hafa vel. Þau hafa þó þann ókost að þeim fylgja aukaverkanir sem lýsa sér í syfju og slappleika. Hann gat þess þó að á allra síðustu árum hefðu komið fram ný lyf sem ekki hafa eins miklar aukaverkanir en þau séu ekki að sama skapi jafn áhrifamikil. Ýmiss konar nefúðalyf hafa einnig reynst vel í baráttunni við þennan hvimleiða sjúkdóm. Ef hin hefðbundna leið gefur ekki til ætlaðan árangur er þrautalendingin sérstakar ofnæmissprautur sem gefið hafa góða raun. Sú meðferð er þó bæði tímafrek og vandasöm og því ekki notuð nema allt annað bregðist.

En er frjókornaofnæmi þá ólæknandi? Getur fólk ekkert gert til þess að varast þennan sjúkdóm? Nokkur ráð eru til að draga úr einkennum. Hægt væri að nota gleraugu til þess að verjast því að frjókornin settust í slímhúð augna. Fólk í áhættuhóp ætti ekki að hafa mikinn trjágróður í garðinum og þá einkanlega þær fjölskyldur þar sem ofnæmi gengi í ættir. Einstaklingar með þrálát einkenni ættu að ferðast til útlanda utan gróðurtíma þess lands sem ferðast væri til. Þá er einnig hægt að fyrirbyggja ofnæmi síðar á lífsleiðinni með ýmsum ráðum. Það hefur lengi verið þekkt að börn sem höfð eru á brjósti eru talin í minni hættu en þau sem alin eru á kúamjólk eða annarri fæðu í stað brjóstamjólkurinnar. Þá ýta þrálátar sýkingar fyrstu æviár barnsins undir ofnæmi en ein orsök þeirra er án efa reykingar í návist þess og eru því óbein orsök ofnæmis. Að örðu leyti er lítið hægt að gera til þess að fyrirbyggja frjókornaofnæmi og þá einkum vegna þess að ekki er hægt að forðast frjókornin sem eru hvarvetna í andrúmsloftinu á gróðurtímabilinu.


Til baka
Lystigarður Akureyrar - Eyrarlandsstofa - Sími: 462 7487 - Netfang: gkb@akureyri.is