Jˇn Thoroddsen - BarmahlÝ­

Hlíðin mín fríða
hjalla meður græna
og blágresið blíða
og berjalautu væna,
á þér ástaraugu
ungur réð ég festa,
blómmóðir bezta!

Sá ég sól roða
síð um þína hjalla
og birtu boða
brúnum snemma fjalla.
Skuggi skauzt úr lautu,
skreið und gráa steina,
leitandi leyna.

Blómmóðir bezta,
beztu jarðargæða
gaf þér fjöld flesta
faðir mildur hæða.
Hver mun svo, er sér þig,
sálar þjáður dofa,
að gleymi guð lofa?

Hlíð, þér um haga
hlýr æ blási andi,
döggvi vordaga
dögg þig sífrjóvgandi!
Um þig aldrei næði,
af þér svo að kali,
vetur vindsvali!


Frˇ­leikur
Í greinasafni er að finna margvíslegan fróðleik um ýmislegt sem lýtur að garðyrkju. Greinaflokkar eru valdir hér að neðan. Undir hverjum flokki eru síðan fjölmargar greinar eftir ýmsa höfunda.

Góða skemmtun.
1957 - 636 pl÷ntur bŠtast Ý Lystigar­inn

Lokið flutningi á plöntusafni Jóns Rögnvaldssonar.

Eins og áður hefir verið skýrt frá hér í blaðinu keypti Fegrunarfélag Akureyrar plöntusafn Jóns Rögnvaldssonar frá Fífilgerði, er hann flutti hingað í bæinn og tók við starfi garðyrkjuráðunauts. Afhenti félagið síðan Lystigarði Akureyrar safnið, og hefir verið unnið að því í vor og sumar, mest í hjáverkum, að koma safninu fyrir í Lystigarðinum, og er því verki nú lokið að heita má. Í safni þessu eru 636 tegundir erlendra plantna, eða 463 tegundir fjölærra blómplantna og 173 tegundir trjáplantna og runna. Plöntur þessar tilheyra 49 plöntuættum, þar af 12 ættum, sem engar íslenskar plöntutegundir eru til af.

Flestar tegundir af rósaættinni.

Flestar þessar plöntutegundir hafa verið ræktaðar það lengi í Fífilgerði, að fengin er nokkurn veginn reynsla fyrir því, að þær geti dafnað vel hér á landi. Þó telur Jón, að allt sé í óvissu enn með alparósirnar, en af þeim eru um 20 tegundir í safninu. Einnig telur hann ekki nægilega reynslu fengna með ræktun allmargra skrautrunna og garðrósa, en af garðrósum eru t. d. um 30 teg­undir í safninu.

Yfirleitt hefir flutningur plantnanna tekist vel, enda þótt þær blómstri margar lítið í ár vegna flutningsins. Flestar eru tegundirnar af rósaættinni, eða 83. Þar næst koma körfublómin, 69 tegundir, síðan sóleyjarættin með 56 tegundir. Fæstar tilheyra höggormsrótaættinni, eða aðeins ein tegund.

Plöntur frá flestum heimshlutum.

Ef til vill er þó merkast við safnið, hve upprunaleg heimkynni plantnanna eru margbreytileg, og má heita, að til séu í því jurtir frá öllum hlutum heims, eða allt frá Grænlandi til Argentínu, Tíbet, Kína og Síberíu. En flestar eru plönturnar að sjálfsögðu ættaðar frá Evrópu.

1957, Íslendingur, 16. ágúst.

Til baka

Lystigarður Akureyrar - Eyrarlandsstofa - Sími: 462 7487 - Netfang: gkb@akureyri.is