┌r ljˇ­inu BarmahlÝ­ eftir Jˇn Thoroddsen
Hlíðin mín fríða
hjalla meður græna
og blágresið blíða
og berjalautu væna,
á þér ástaraugu
ungur réð ég festa,
blómmóðir bezta!
Frˇ­leikur
Í greinasafni er að finna margvíslegan fróðleik um ýmislegt sem lýtur að garðyrkju. Greinaflokkar eru valdir hér að neðan. Undir hverjum flokki eru síðan fjölmargar greinar eftir ýmsa höfunda.

Góða skemmtun.
1947 - Lystigar­urinn og fr˙ Margrethe Schi÷th.

Akureyri hefir lengi verið landskunn vegna skrúðgarða sinna og fagurra trjálunda, sem svo mjög setja svip sinn á eldri hluta bæjarins. Einkum verður mönnum títt um Lystigarðinn, sem eflaust er einstakur á sína vísu hér­lendis, hvað snertir stærð og fegurð.

Þegar vorar, og sólin skín í heiði leita bæjarbúar og ferðamenn á þennan unaðslega stað og reika þar um undir háum beinvöxnum reynitrjám og ilmandi björk­um, virða fyrir sér litríkar og fagrar blómjurtir, sem alls staðar eru til augnayndis, ganga gjarnan að minnisvarða Matthíasar Jockumssonar, sem vafinn er þroskamiklum trjágróðri og horfa á hið svipmikla þjóðskáld, eða hvílast i iðgrænum hvömmum, dottandi við glaðlegan klið þrast­anna. Fljótlega rekast menn á látlausan steinbekk greypt­an

Lystigarðurinn og gamli Eyrarlandsbærinn um 1930
bronsplötu, og við nánari athugun kemur í ljós mynd af konu, sem er að gróðursetja trjáplöntu. Undir þess­ari táknrænu bronsmynd standa þessi yfirlætislausu orð: "Konur gerðu garðinn árið 1912." Hinir ókunnugu munu blessa þessar dáðríku konur, sem gerðu þennan undur fagra garð, en þeim, sem kunnugri eru verður fyrst og fremst hugsað til frú Margrethe Schiöth, hins gagn merka brautryðjanda, sem Akureyri á, öðrum fremur að þakka þennan fagra garð, og það að bærinn hefur um langan aldur, þótt standa öðrum kaup­stöðum landsins framar i garðrækt og ræktunarmenn­ingu. Þess vegna verður vart hjá því komist að minnast þessarar mætu garðyrkjukonu, þegar rætt er um skrúð­garða á Akureyri, sem á langri starfsævi, hefur unnið garðræktinni í höfuðstað Norðurlands meira gagn en nokkur annar einstaklingur af hennar samtíð, enda verða afrek frú M. Schiöth seint metin að verðleikum, og er þó á engan hátt ætlunin að vanmeta störf ýmsra annarra, sem unnið hafa að þessum málefnum á Akureyri.

Eins og áður er getið var hafist handa við gerð Lysti­garðsins árið 1912, og eru það nokkrar ötular konur, sem standa að því verki, og þá einkum þær tengdamæðgurnar frú Anna Schiöth og Margrethe, sem árið 1919 tók algjör­lega við ræktun og rekstri garðsins. Þá þegar hafði hún komið á legg skrúðgarði við heimili sitt, sem brátt vakti mikla athygli, sakir fegurðar og þroska.

Á þeim árum voru að vísu eigi fáir, sem vissu og trúðu því að trjárækt gæti blessast vel hér á landi, og margir gróðursettu hríslur í húslóðir sínar, en fáir voru þeir, sem gáfu sér tóm til að hirða um nýgræðinginn, vöktu yfir þroska hans og viðgangi, og enn færri ræktuðu með nokkrum árangri blómjurtir, eða gerðu sér far um að efla menningarlega ræktun. Garðyrkjunni var þá al­mennt ekki sýndur mikill sómi, enda viðast hvar á mjög lágu þroskastigi, sakir vankunnáttu, hirðuleysis og ótak­markaðrar vantrúar á gróðurmátt íslenskar moldar.

Frú M. Schiöth var á undan sinni samtíð hérlendis í þessum efnum. Hún lét ekki staðar numið, eftir að fræið eða plantan var komið í moldina, heldur fylgdist með vexti og viðgangi jurtanna, leitaðist við að skilja þarfir þeirra og skilyrði fyrir þroska möguleikum ýmissa plantna í íslenskum jarðvegi, og gerði sér far um að ná góðum árangri af starfi sinu með stakri natni og umhirðu. Enda kom fljótlega i ljós að öll hennar mikla umhyggja og ná­kvæmni var ekki unnin fyrir gíg. Frú Margrethe tókst að rækta fleiri og fegurri skrautjurtir, en nokkurn hafði dreymt um að þrifist gætu norður á Akureyri, við þau skilyrði, sem íslensk náttúra hefir að bjóða þar um slóðir.

Frú M. Schiöth sannaði Akureyringum undraverðan gróðurmátt íslensks jarðvegs, ef rétt væri að farið, með marglitum fögrum blómum, sem aldrei höfðu áður sést þar á staðnum, nema í hinum afburða velhirta og snotra garði Schiöths heimilisins.

Árið 1907, eða fyrir 40 árum síðan, flutti frúin fyrstu fjölæru jurtirnar frá Danmörku til Akureyrar, og gekk henni í fyrstu all erfiðlega að fá þær til að dafna vel, sem eðlilegt er, þar sem hér var um nýnæmi að ræða, og engin reynsla fyrir hendi i þessum efnum. En frú Schiöth var staðráðin í að gefast ekki upp, heldur herti róðurinn og reyndi nokkru síðar einnig sumar-blómaræktun á ber­svæði. Þótti þá flestum, sem gáfu gaum að garðyrkju frúarinnar, að nú tefldi hún of djarft gegn hinum erfiðu náttúruskilyrðum, sem þeir álitu, að stæðu slíkum til­raunum fyrir þrifum hér á landi. En Margrethe vann bug á þessari bábilju, og sannaði með starfinu í skrúðgarði sínum, að möguleikarnir á ræktun skrúðgarða eru ótrú­lega miklir hér við heimskautsbaug, og innleiddi meiri fjölbreytni jurta og blóma í slíka garða. Nú er svo komið, að ósennilegt þykir að nokkur Akureyringur hafi efast um réttmæti þessarar tilrauna, eða haft vantrú á starfi kon­unnar, sem vann í fyrstu sjálfstætt og óstudd að þessu merkilega menningarmáli, og leiddi það fram til sigurs, enda hlaut að fara svo, að hún eignaðist marga stuðnings menn og konur í hinu frjóa og skapandi starfi sínu, sem og Lystigarðurinn ber órækt vitni um, og garðræktin í heild á Akureyri.

Þessir tveir garðar, sem frú Schiöth hefir lagt hönd að, - Lystigarðurinn og "Schiöthsgarðurinn," hafa verið frá upphafi og munu verða Akureyringum fyrirmynd og hvatning í ræktunarmálum þessum, enda má á margan hátt þakka áhrifum þessara garða, þá smekkvísi og þann menningarblæ sem þegar sést í mörgum hinum yngri skrúðgörðum bæjarins.

Sem dæmi um þá trú, sem margir Akureyringar höfðu á þroskunar möguleikum plantna um þær mundir, er garð­rækt frú Schiöths var að ná sínum ágæta árangri, skal þess getið til gamans að dreng hnokki nokkur fann fræ rekið á fjöru við heimili sitt. Móðir hans tók þetta leik­fang drengsins og stakk því í mold sunnan undir hús vegg sínum, en þar gnæfir nú stærðar tré yfir burst hússins.

Þann 31. júlí síðastliðinn átti frú Margrethe Schiöth 95 ára afmæli, og því starfsríkur ævidagur hennar að kvöldi kominn, en ennþá er hún ung í anda og hinn brennandi áhugi á garðyrkju sá hinn sami og þegar hún hóf brautryðjanda starf sitt, ræktun skrúðgarða á Akur­eyri um síðustu aldamót. Enn þann dag í dag leggur hin aldraða sóma kona leið sína í Lystigarðinn, til að hlú að gróðri, og endurbæta með sinni stöku kostgæfni þennan eftirlætis blett allra bæjarbúa.

Það er eftirtektarvert að frú Schiöth hefur aldrei leit­að eftir fjárhagslegum hagnaði eða styrk í starfi sínu, eða sóst eftir öðrum arði af verkum sínum, en þeirri unaðs­legu gleðikennd sem vel heppnuð ræktun gefur garðyrkju­manninum. Litrík ilmandi blóm og fagrir trjágarðar eru launin. Þeir eru hennar líf og sál.

Áhyggjur hennar vegna garðyrkjunnar var aldrei fjár­hagshliðin, heldur vegna veðráttunnar og fólksins og svo er það enn. Er það ekki athygli vert og um leið sárgræti­legt fyrir ræktunarmenningu okkar Íslendinga, eins og hún var og er enn að ýmsu leiti, og sönnun þess hve langt við stöndum að baki nágranna þjóðum okkar í smekkvísi og fegurðar tilfinningu fyrir gróðurríki, þegar þessi reynda garðyrkjukona segir: "Það var betra að verjast veðrátt­unni en fólkinu," og á þá við starf sitt garðræktina, baráttuna við okkar stutta umhleypingasama sumar, og skiln­ingsleysi fólks á friðhelgi gróðursins.

Enn eru til aumir og menningarsnauðir íslendingar, sem vegna vanþekkingu og áhugaleysi standa garðrækt­inni fyrir þrífum og vinna jafnvel vitandi og óvitandi spellvirki á gróðri jarðar, sem ötular skapandi hendur hafa unnið við að endurbæta og fegra á allan hátt, í stað þess að ljá gróandanum lið sitt, sér og öðrum til gagns og gleði.

Þegar frú Margrethe Schiöth varð sjötug árið 1941 sýndi bæjarstjórn Akureyrar henni þá verðskulduðu viðurkenn­ingu, að gera hana að heiðursborgara Akureyrarbæjar, fyrir ómetanleg störf í þágu bæjarfélagsins beint og ó­beint á þessu sviði.

Í stuttu símtali við þessa heiðurskonu, bar það meðal annars nýlega á góma hjá. okkur, hvort henni fyndist ekki tími til kominn að taka sér hvíld frá erilsömu starfi garð­yrkjunnar og njóta ævikvöldsins á hinu friðsama fagra heimili sínu, sem jafnan hefur þótt bera svip hinnar röggsömu húsmóður, eftir að hafa séð nær hálfrar aldar ötult starf sitt bera svo ríkan ávöxt. En frúin svaraði með sinum alþekkta geðþekka tón: "Ég ætlaði að vísu að hætta, en fann að ég gat það ekki, og svo hefi ég líka miklu betra tóm til að sinna þessum hugðarefnum mínum nú en áður var."

Trygglyndi hennar og trúfesta í starfinu ætti að vera yngri kynslóð Akureyrar fyrirmynd og hvatning til auk­inna átaka á sviði garðræktarinnar.

Megi íslensk garðyrkja æ njóta slíkra manna og kvenna, sem frú Schiöth er, og mundi þá menningarmáli sem þessu, borgið frá þeirri niðurlægingu, sem íslensk skrúð­garða gerð hefur verið í til skamms tíma, allt frá þeirri tíð er landsmenn stigu það þroska spor, að rækta eigi aðeins sér til matar, heldur og til augna yndis og fegrun­ar umhverfi sínu.

Við sem garðrækt unnum óskum frú Margrethe Schiöth hjartanlega til hamingju með glæsilegt velunnið ævi­starf, og þann óbrotgjarna minnisvarða, sem hún hefur gert sér með starfi sinu, og vonum að enn um skeið fái Akureyri að njóta blessunarríkra starfskrafta hennar til fegrunar bæjarins.

Edvald B. Malmquist

(Ath. greinin er töluvert lengri, minnst m.a. á ástand og horfur í skrúðgarðarækt á Akureyri, helstu garða í bænum, girðingar og fleira.)

Garðyrkjuritið 1947Til baka
Lystigarður Akureyrar - Eyrarlandsstofa - Sími: 462 7487 - Netfang: gkb@akureyri.is