Mßlshßttur
Oft vex laukur af litlu.
Frˇ­leikur
Í greinasafni er að finna margvíslegan fróðleik um ýmislegt sem lýtur að garðyrkju. Greinaflokkar eru valdir hér að neðan. Undir hverjum flokki eru síðan fjölmargar greinar eftir ýmsa höfunda.

Góða skemmtun.
Bˇndarˇsir (Paeonia).

Bóndarósir hafa verið ræktaðar hérlendis með góðum árangri í marga áratugi. Víða sjást stór fyllt yrki í gömlum görðum hérlendis í rauðum, hvítum eða bleikum litum. Vetrarkuldi bítur lítt á þær og snemma vors skjóta þær upp rauðleitum, kraftmiklum blaðsprotum. Mikið skipt, þykk blöð líta síðan dagsins ljós og stórir, hnöttóttir blómknúppar fylgja í kjölfarið.

Þannig vaxa þær af þrótti fram á sumarið og í júlí opnast fyllt eða einföld blóm þeirra og standa þær alllengi í blóma. Þær ilma flestar dálítið og sumar mikið og eru góðar til afskurðar. Eftir blómgun stendur fallegt laufið fyrir sínu og er til skrauts alveg fram á haustið er þær fara aftur í dvala.

Ræktun.

Bóndarósir eru mjög auðveldar í umhirðu. Ekki þarf að skipta þeim reglulega heldur á þvert á móti. Þær vilja helst standa óhreyfðar á sama stað svo áratugum skiptir enda geta þær orðið fjörgamlar. Þess vegna verður að huga að því að velja þeim góðan stað frá upphafi og staðsetja þær þannig að gráðug tré eða runnar steli ekki frá þeim ljósi eða næringu þegar fram líða stundir. Bóndarósum má fjölga með sáningu eða skiptingu. Sé þeim skipt er best að taka plöntuna upp í heilu lagi og kljúfa hana síðan með beittum spaða í 4 eða fleiri hluta. Ræturnar eru þykkar, kjötkenndar og ganga djúpt í jörð og líkjast hnýðum. Einstaka rótstubba er auðvelt að brjóta frá aðalhnausnum og setja í pott eða bakka. Þannig má fá enn fleiri plöntur. Það líða þó oft tvö eða fleiri ár áður en bóndarósirnar blómgast á ný eftir þessa meðferð. Skipta á plöntunni meðan hún er í hvíld, helst í ágúst eða september en annars mjög snemma vors. Eigi þær að þrífast vel á nýjum vaxtarstað er ráðlegt að bæta jarðveginn sem fyrir er. Blanda má næringarríkum jarðvegi í snauðan jarðveg og einnig er gott að setja slatta af húsdýraáburði og tvo til þrjá hnefa af beinamjöli undir hverja plöntu. Bóndarósirnar má ekki gróðursetja of djúpt. Til að þær vaxi skikkanlega og blómstri árlega er æskilegt að jarðvegslagið yfir rótunum sé ekki meira en 3 cm.

Bóndarósir þrífast best í frjóum, vel framræstum jarðvegi og gæta verður þess að jarðvegurinn sé ekki of súr. Þær þrífast betur í basiskum jarðvegi en súrum. Sé jarðvegur súr eins og raunin er viða hérlendis verður að kalka hann verulega fyrir útplöntun eigi plönturnar að þrífast og blómgast. Fyrir utan þessi grundvallaratrið er æskilegt að staðsetja þær í sól og vökva plönturnar reglulega á tímum mikilla þurrka og gefa þeim dágóðan skammt af tilbúnum áburði árlega. Blómin eru stór og þung (sérstaklega fylltu yrkin) og þurfa bóndarósir því stuðning eða uppbindingu ef vel á að vera. Auðveldast er að fjárfesta í lágu grænu plastneti (fæst víða í blómaverslunum), beygja það í hæfilega stóran hring og setja það yfir bóndarósina snemma vors. Bóndarósirnar vaxa síðan upp í gegn um netið og áður en varir hverfur það í laufmassann en rósirnar standa af sér bæði vind og vætu. Visin blóm eru fjarlægð jafnóðum og þau visna. Síðsumars, í ágústlok eða september er síðan ágætt að bæta jarðveginn með því að bæta lagi af lífrænni gæðamold ofan á þann jarðveg sem fyrir er í beðinu. Vetrarskýli er ekki nauðsynlegt og óþarfi er að klippa plönturnar niður að hausti, það má alveg bíða til vorsins.

Best er að rækta bóndarósir sér í beði sunnan undir húsvegg eða skjólvegg og þá helst með tegundum sem sjaldan þarf að skipta. Eins kemur vel til greina að hafa eingöngu mismunandi tegundir af bóndarósum í beðinu og planta haustlaukum með þeim, til dæmis páskaliljum eða krókusum.

Hér á eftir verður síðan getið helstu tegunda bóndarósa sem hafa reynst framúrskarandi vel hérlendis.

Bóndarós (Paeonia officinalis). Bóndarós (Peaonia officinalis 'Rosea Plena)

Sú gamla og góða bóndarós er mest ræktuð af bóndarósunum hérlendis og tvímælalaust á meðal auðveldustu garðblóma. Ræturnar eru grófar og ganga langt niður í jörðina. Eftir nokkur ár í ræktun skjóta þær gjarnan út rótsprotum sem auðvelt er að skilja frá móðurplöntunni. Stönglar eru stinnir með 2-3 skiptum, þykkum, leðurkenndum, dökkgrænum-grágrænum blöðum og er endasmáblaðið djúpflipótt. Blöðin eru hárlaus og gljáandi á efra borði en hærð á því neðra. Blóm standa stök á stöngulendum, 9-13 cm í þvermál með 5-8 krónublöð. Ofkrýnd yrki eru þó mest ræktuð og eru þau gjarnan nefnd eftir blómlit. Sem dæmi má nefna 'Alba Plena', 'Rosea Plena' og 'Rubra Plena'.

Bóndarósin vex villt í kalkríkum fjallahéruðum frá Frakklandi til Tyrklands en hefur verið ræktuð um alla Evrópu frá miðöldum. Erlendis er hún gjarnan nefnd klausturrós en eins og nafnið bendir til þá var plantan notuð til lækninga hér áður og fyrr og átti sinn fasta samanstað í görðum klaustranna. Notin af henni voru þó nokkuð á reiki en trúin hafði jú sitt að segja. Enski læknirinn Nicholas Culpeper skrifaði í lærðri grein um 1640 um að blanda mætti saman þurrkuðum rótum og blöðum. Eina munnfylli ætti síðan að taka af þessu dufti að morgni og kvöldi og læknaði það svimaköst og eins væri það góð vörn gegn illum vættum. - Þurrkuð fræ sett í vínblöndu áttu að koma í veg fyrir martraðir og stuðla að bættum draumförum. Hvort skyldi það vera fræin eða vínið sem höfðu þetta góð áhrif? Nýrri rannsóknir sýna að bóndarósir eru lítt nýtar til lækninga.

Silkibóndarós (Paeonia lactiflora). Silkibóndarós (Paeonia lactiflora).

Silkibóndarósir eru önnur grúppa sem er vel þekkt meðal garðeigenda. Gengur hún undir ýmsum nöfnum. T.d. hefur hún verið nefnd kínversk bóndarós, garðabóndarós fyrir utan silkibóndarós en það nafn er mest notað í dag. Latneska heitið hefur einnig verið nokkuð á reiki. Paeonia lactiflora hybrids eða Paeonia cinensis eru dæmi um það. Yrki af hvítu bóndarósinni (Paeonia lactiflora) eru óteljandi og gullnáma fyrir safnara en hér verður látið nægja að minnast á algengustu yrkin sem fá má í verslunum. Þrjú góð yrki koma þá gjarnan upp í hugann. 'Festiva Maxima' með hvít blóm, 'Sarah Bernhardt' með bleik blóm og 'Karl Rosenfield' með rauð blóm.

Silkibóndarósir blómgast í júlí og eru oft hápunktur sumarskrauts í görðum þar sem mikið er af bóndarósum. Góður kryddilmur er áberandi. Yfirleitt stærri en bóndarós eða allt að 1m á hæð. Stönglar uppréttir, fremur stinnir með eitt eða fleiri blóm. Blöðin eru mikið skipt. Harðger og góð til afskurðar.

Heimkynni silkibóndarósar er í Kína, Tíbet og í Mongólíu. Mongólar notuðu plöntuna bæði til lækninga og til matar. Síðar var hún ræktuð vegna einstakrar fegurðar sinnar. Keisarar og mandarínar ræktuðu bóndarósir í miklu magni í görðum sínum og víða má sjá kínverkst postulín skreytt bóndarósum.

Yrki silkibóndarósa voru fyrst flutt til Evrópu fyrir um 200 árum síðan. Fleiri nýjar yrki voru síðan ræktuð og eftirspurn var og er enn mikil eftir þeim.

Þráðbóndarós (Paeonia tenuifolia). Þráðbóndarós (Paeonia tenuifolia).

Stönglar eru uppréttir, blöðóttir og ógreindir. Fremur lágvaxin eða aðeins um 0,5-0,7 m á hæð. Blómin hárauð-skarlatsrauð, upprétt og einstök á stöngulendum. Blómgast í júní. Sérstök að því leiti að hún er með skriðula jarðstöngla með aflöngum húðlaga þykkildum. Blöðin eru þrískipt með mjóa striklaga flipa sem eru aðeins 1-2 mm á breidd og er tegundin auðþekkt á blöðunum. Uppruni S-Evrópa og Kákasus. Fyllta yrkið 'Plena' er mest ræktað í görðum.

Hjarnbóndarós (Paeonia anomala). Hjarnbóndarós (Peaonia anomala v. intermedia)

Uppruni A. Rússland - M Asía. Uppréttir stinnir stönglar. Hæð 70-90 cm. Blómin 8-10 cm í þvermál, stök á stöngulendum, dálítið lútandi. Blómlitur rósrauður-rauðfjólublár og blómgast í júní-júlí. Afbrigðið P. anomala var. intermedia er mun algengari sem garðplanta enda mjög harðgert og blómgast mikið. Blöðin 2-3 skipt, fremur stór og gljáandi.

Lotbóndarós (Paeonia veitchii). Lotbóndarós (Paeonia veitchii)

Uppréttir fremur stinnir stönglar. Verður 60-90 cm á hæð. Blóm nokkur saman á stönglinum, rósrauð. Blómgast í júní-júlí. Blöðin fagurgræn, mikið skipt, blaðflipar mjókka í odd. Afbrigðið P. veitchii var. woodwardii er mun minna eða aðeins um 30-40 cm og ekki síðri að neinu leyti nema síður sé.

Fleiri tegundir mætti svo sem tína til en látum þetta duga í bili, en ef einhver býður ykkur bóndarós þá ættuð þið að hugsa ykkur um tvisvar áður en þið neitið, því auðveldari og skemmtilegri garðblóm eru vandfengin hér á okkar ísa kalda landi.

BSt.

Til baka

Lystigarður Akureyrar - Eyrarlandsstofa - Sími: 462 7487 - Netfang: gkb@akureyri.is