Saga Lystigarðsins

Lystigarðurinn stofnaður

Lystigarðurinn á Akureyri var opnaður formlega árið 1912. Nokkrar húsmæður stofnuðu Lystigarðsfélagið 1910. Í lögum félagsins, 2. grein, segir:

“Tilgangur félagsins er að koma upp garði í Akureyrarbæ, bænum til prýði og almenningi til skemmtunar. Garðurinn sé skreyttur trjám og blómum og leikvellir og lystihús séu þar almenningi til afnota svo fljótt sem því verður við komið”

Mynd af skipulagi gamla garðsins 1920-1930

Þegar árið 1909 sóttu þær um land og fengu úthlutað um 1 ha landspildu úr landi Stóra Eyrarlands. Anna Catrine Schiöth skipulagði og teiknaði þennan elsta hluta garðsins og vann hún síðan með hjálp annarra kvenna að vexti og viðhaldi garðsins fyrstu árin. Tengdadóttir hennar frú Margrethe Schiöth tók síðar við stjórninni og fór með hana meira og minna síðustu 30 árin sem félagið starfaði. Lystigarðurinn er fyrsti almenningsgarður landsins og var rekinn af Lystigarðsfélaginu allt til ársins 1953. Þá var félagið lagt niður og Akureyrarbær tekur formlega við rekstrinum og hefur rekið hann síðan. Garðurinn hefur verið stækkaður þrisvar sinnum síðan þá og er nú um 3.6 ha í 40-50 m hæð. Helstu markmið með rekstrinum eru fjölmörg. Eitt mikilvægasta hlutverkið er að finna með prófunum, fallegar, harðgerar tegundir fjölæringa, trjáa og runna. Þar að auki er hann notaður til afþreyingar og nýtist almenningi til fróðleiks og skemmtunar.

Grasagarðurinn 1957

Mynd af Kristjáni og Jóni Rögnvaldssyni í Lystigarðinum árið 1970Grasagarður var stofnaður 1957. Fegrunarfélag Akureyrar hafði þá forgöngu um að plöntusafn Jóns Rögnvaldssonar í Fífilgerði var keypt til bæjarins og komið fyrir í Lystigarðinum, en Jón hafði verið ráðinn forstöðumaður garðsins árið 1954 og gegndi því embætti til 1970. Grasagarðurinn er því annar grasagarður landsins (eftir Skrúð á Núpi í Dýrafirði) og er lika einn nyrsti grasagarður í heimi (nyrsti er Tromsø botaniske Hage í Noregi) . Flestar tegundir sem ræktaðar eru í garðinum eiga sinn náttúrulega uppruna á heimskautasvæðum, norðlægum slóðum eða úr háfjöllum víða um heim. Í vesturhluta garðsins er beð með fjallaplöntum úr mismunandi heimsálfum. Einnig eru sérstök beð fyrir íslensku flóruna og heimskautaflóruna í suðaustur hluta garðsins. Meginþorri íslensku flórunnar eða um 150 tegundir eru til sýnis í íslensku beðunum en á sama stað er heimskauta flóran með arktískum tegundum. Alls eru í ræktun í garðinum rétt um 3500 tegundir.