Blöðin sígræn, öfugegglaga eða spaðalaga, tennt og mjókka niður að stilknum, 2-5 sm að lengd, flest við grunn. Körfurnar 2-3 sm í þvermál. Gular pípukrónur eru í miðju körfunnar, en hvít eða ofurlítið bleikleit jaðarblóm umhverfis. Fagurfífillinn vex villtur víða í nágrannalöndum okkar. Hérlendis eru ýmis yrki fagurfífils ræktuð sem sumarblóm og nær hann oft að halda sér við á sama stað í nokkur ár.