Betula alba subsp. pubescens (Ehrh.) Regel Betula alba var. pubescens (Ehrh.) Spach Betula pubescens var. typica H.Winkl.
Lífsform
Stór runni - tré
Kjörlendi
Myndar skóga og kjarr á þurrlendi upp að 400-450 m. Vaxtarlag mjög breytilegt eftir loftslagi, myndar oftast þétt og lágvaxið kjarr við ströndina, en hávaxnari tré inn til landsins.
Blómgunartími
Maí-júní
Hæð
1-12 m
Vaxtarlag
Beinvaxið eða kræklótt, oft margstofna lítið tré, mjög breytilegt vaxtarlag, myndar kjarrlendi eða skóga víða um land. Börkurinn rauðbrúnn eða ljósleitur, stundum hvítleitur og flagnar af trénu með aldrinum, 1-12 m á hæð.
Lýsing
Blöðin gróftennt, egglaga, fjaðurstrengjótt, odddregin, 2-5 sm á lengd, blaðstilkur 1,5-2,5 sm, bæði blöð og greinendar ofurlítið dúnhærð. Blómin einkynja í reklum. Kvenreklarnir uppréttir í fyrstu, um 2 sm á lengd. Rekilhlífarnar þrísepóttar í endann. Blómin standa þrjú og þrjú saman, hvert með einni frævu og tveim stílum. Aldinið er örsmá hneta með allbreiðum væng, hærð til enda. Karlreklarnir lengri, 2-4 sm og hanga niður. Karlblómin með tveim klofnum fræflum. Blómgast í maí-júní. LÍK/LÍKAR: Fjalldrapi. Þekkist frá honum bæði á vaxtarlagi og blaðlaginu. Sjá einnig skógviðarbróðir sem er kynblendingur birkis og fjalldrapa og líkist báðum foreldrum.
Heimildir
1,9, HKr
Notkun/nytjar
Takist nýblómstruð. Það hefir styrkjandi, þvagdrífandi, blóðhreinsandi, samandragandi og barkandi kraft. Af nýsprottnum og þurkuðum blöðum þess gjörist te, en af berkinum seyði. (GJ)Birkilauf má nota til litunar. Sterkari og fegurri litur er úr því nýju en þurkuðu. Safnist helst nýþroskað. (ÞS)
Útbreiðsla
Algengt um land allt, frá láglendi upp í 450 m hæð. Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: Grænland, N Evrópa, Síbería, N Ameríka, temp. Asía