Calluna vulgaris

Ættkvísl
Calluna
Nafn
vulgaris
Íslenskt nafn
Beitilyng
Ætt
Ericaceae (Lyngætt)
Samheiti
Basionym: Erica vulgaris L.
Lífsform
Dvergrunni
Kjörlendi
Vex í mólendi og í fjallshlíðum einkum inn til dala og upp til heiða.
Blómalitur
Rauðbleikur-ljósrauðfjólublár
Blómgunartími
Ágúst-sept.
Hæð
0.10-0.30 m
Vaxtarlag
Sígrænn, jarðlægur, kræklóttur smárunni oft með rótskeyttum greinum. Stönglar rauðleitir, jarðlægir með uppsveigðum greinum, oftast um 10-20 (-30) sm á hæð. Viðurinn er mjög harður og þéttur. Talið er að það verði allt að 50 ára gamalt.
Lýsing
Laufin sígræn, stilklaus, mjög lítil eða aðeins um 2 mm á lengd og 0,5 mm á breidd, barrlík og svo þétt krossgagnstæð að greinar virðast ferstrendar. Tveir greipfættir separ eða eyru ganga niður úr blöðunum. Venjulega standa blaðsprotar upp úr blómklasanum. Blómin eru lítil í löngum, þéttum, marggreindum klösum. Blóm drúpa, rauðbleik-ljósrauðfjólublá, stuttleggjuð, þétt saman í klösum, fjórdeild, um 3 mm í þvermál. Bikarblöðin sporbaugótt, heldur lengri en krónublöðin og þekja þau að mestu. Dökkrauðgræn randhærð háblöð liggja að bikarnum neðan til. Átta fræflar og ein fræva með einum rauðum stíl. Aldinin nær hnöttótt hýðisaldin. Nær sjaldan að þroska fræ. Blómgast í ágúst-sept. Setur mikinn svip á umhverfið seinni hluta sumars er það litar stóra heiðafláka rauðfjólubláa þegar aðrar plöntur eru komnar í haustskrúða.
Heimildir
1,2,3,9, HKr.
Reynsla
Hinir sígrænu blaðsprotar beitilyngsins þóttu eftirsóknarverðir til vetrarbeitar á öldum áður. Jurtin er góð fóðurjurt fyrir sauðfé og verður hún mjög stíf og bragðrömm við þurrkun. Með henni má lita skinn með álsúlfati, mýrar rauðu, kalinsúlfati eða kalsíumsódí. Við suðu verður liturinn fallega kaffibrún. Þjóðtrú segir að leggi maður beitilyngið í rúm eða annarstaðar innanhúss komi síður mýs eða rottur í húsið. Einnig tölvuert notuð í te og blöndur með öðrum jurtum til lækninga. Auðvelt að fjölga með græðlingum.
Útbreiðsla
Algengt um stóran hluta landsins, en er ekki á Vestfjörðum og Vestur-Húnavatnssýslu, einnig ófundið inn til landsins í Austur-Húnavatnssýslu og Skagafirði.Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: Arktíski hluti Evrópu og einnig víða sunnar til fjalla í Evrópu og Litlu Asíu og er talin ágeng tegund sums staðar í N Ameríku.