Campanula uniflora

Ættkvísl
Campanula
Nafn
uniflora
Íslenskt nafn
Fjallabláklukka
Ætt
Campanulaceae (Bláklukkuætt)
Lífsform
Fjölær jurt
Kjörlendi
Vex á háfjallamelum, aðeins hátt til fjalla, uppi á brúnum, ýmist á grónum eða grýttum flötum.
Blómalitur
Dökkblár
Blómgunartími
Júlí-ág.(sept.)
Hæð
0.05-0.15 m
Vaxtarlag
Lágvaxin eða aðeins 5-15 sm á hæð. Stöngullinn uppsveigður, ógreindur og hárlaus. Aðeins eitt blóm er á hverjum stöngli.
Lýsing
Blöðin heilrend eða ógreinilega gistennt, hárlaus, en neðstu blaðstilkarnir eru þó stundum með gisnum, hvítum randhárum. Neðstu blöðin stilkuð, öfugegglaga eða langsporbaugótt, en ofar á stönglinum eru blöðin stilklaus, lensulaga eða nær striklaga.Blómið eitt, drúpandi. Bikarinn hærður, skarpstrendur með breiðsýllaga, uppréttum oddmjóum flipum, sem eru styttri en bikarpípan. Krónan nokkuð djúpskert og mjóflipótt, trektlaga, dökkblá, klukkulaga, töluvert minni en á bláklukku og trektin mun mjórri, 1,5-1,8 sm á lengd og 4-8 mm í þvermál. Fræflar fimm, frænin þrjú. Hýðið upprétt og opnast um miðjuna eða ofar. Blómgast í júlí-ágúst. Lík/líkar: Bláklukka. Auðþekkt frá bláklukku þar sem hún er mun minni, með hærðan bikar og kringlóttu stofnblöðin vantar auk þess sem hún vex yfirleitt mun hærra til fjalla.
Heimildir
1,2,3,9
Útbreiðsla
Mjög sjaldgæf. Á nokkrum stöðum hátt til fjalla frá Skagafirði austur fyrir Eyjafjörð. Einnig fundin á Vatnsdalsfjöllum og Skjaldfannarfjalli við Djúp. Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: Nokkuð víða um norðurhvel; Finnst t.d. í Kanada, Sviss, Þýskalandi, Grænlandi, Noregi, Rússlandi, Svíþjóð og N Ameríku.