Upp af rót vaxa margir gisstæðir, blöðóttir stönglar 6-20 sm á hæð. Nokkuð breytileg tegund en oftast er jurtin öll gráleit af ljósum ullhárum.
Lýsing
Blöðin oftast egglaga, oddbaugótt eða lensulaga, stilklaus. Blöðin gagnstæð 0,6-1,8 sm á lengd og 3-4 mm á breidd. Þau eru oft svo þéttstæð, að þau virðast standa í hálfgerðum hvirfingum á sprotaendum.Blómin hvít, 1,5-2 sm í þvermál. Krónublöðin sýld, þriðjungi til helmingi lengri en bikarblöðin, oftast fimm en stundum fleiri. Fræflar 10. Ein fræva, oftast með 5 stílum. Aldin er tannhýði með 10 tönnum. Blómgast í maí-júní. Þrjár deilitegundir músareyra eru taldar vera hérlendis: C.a. subsp. alpinum og C.a. subsp. lanatum (Lam.) Ces., loðeyra, eru algengar um land allt, C.a. subsp. glabratum (Hartman) Á. & D.Löve, snoðeyra sem er nær alveg hárlaust nema í blaðgreipunum, og með sérlega fíngerða, granna blómleggi og finnst hér og hvar en strjált um norðurhelming landsins (H.Kr.).LÍK/LÍKAR: Vegarfi & fjallafræhyrna. Músareyrað er auðþekkt frá vegarfa á stærri blómum og hlutfallslega lengri krónublöðum miðað við bikarblöðin. Fjallafræhyrna er fagurgrænni og ekki eins loðin, bikarbotninn breiðari niður og belgmeiri auk þess sem aldinið er breiðara. Þessar tegundir eru mjög erfiðar í aðgreiningu, en fjallafræhyrnan finnst eingöngu hátt til fjalla. Músareyra vex hins vegar jafnt til fjalla sem á láglendi.
Heimildir
1,2,3,9
Útbreiðsla
Mjög algengt um land allt, frá fjöru til fjalla.Önnur náttúruleg heimkynni: Norðurhvel