Cochlearia officinalis

Ættkvísl
Cochlearia
Nafn
officinalis
Íslenskt nafn
Skarfakál
Ætt
Brassicaceae (Krossblómaætt)
Lífsform
Fjölær jurt
Kjörlendi
Vex í þéttum jarðvegi nálægt sjó í fuglabjörgum, klettum og klöppum í fjörum. Finnst þó stundum á háfjöllum og er þá mjög smávaxið.
Blómalitur
Hvítur
Blómgunartími
Maí-júní(júlí)
Hæð
0.10-0.30 m
Vaxtarlag
Margir uppréttir eða uppsveigðir, stórgáróttir, greindir, blöðóttir stönglar af sömu rót, 10-30 (-40) sm á hæð. Öll plantan hárlaus.
Lýsing
Stofnblöðin gljáandi, mörg saman í hvirfingu, hóflaga, stundum nær kringlótt, langstilkuð (2-3 x blaðkan). Blaðkan oftast um 2-4 sm í þvermál, en oft mun minni.Blómin, 5-12 mm í þvermál, fjórdeild, gulhvít eða hvít í klösum á greinaendum. Krónublöðin u. þ. b. helmingi lengri en bikarblöðin og slær stundum á þau rauðleitum blæ. Krónublöðin spaðalaga, um 4 mm a lengd. Bikarblöðin grænleit eða rauðfjólublá, öfugegglaga eða sporöskjulaga um 2 mm á lengd. Fræflar 6 og ein hnöttótt fræva. Fullþroskuð aldin 5-7 mm á lengd og 4-5 mm á breidd, hnatt- eða egglaga. Blómgast í maí-júní. Mjög breytileg tegund.“Finnst einstöku sinnum hátt til fjalla inni á hálendinu, eða við vatnslitla árfarvegi, og er þá oft örsmátt, blaðkan aðeins 2-3 mm og öll plantan jarðlæg, aðeins 2-3 sm í þvermál. Ekki er fullljóst hvernig á þessum litlu fjallaplöntum skarfakálsins stendur, eða hvort um aðskilda tegund er að ræða.” (H.Kr.)LÍK/LÍKAR: Engar. Hið örsmáa fjallaafbrigði skarfakálsins minnir á jöklaklukku Auðgreind frá jöklaklukku á hnöttóttum skálpum.
Heimildir
1,2,3,9, HKr, Vísindavefurinn
Reynsla
“Skarfakálið er gömul lækningaplanta. Var það talið uppleysandi, þvag- og svitadrífandi, blóðhreinsandi og örva tíðir kvenna. Oft var það soðið og lagt í skyr, sem geymt var til vetrar. Blöðin eru best fersk og eru þau mulin í mortéli með sykri. Rótin var etin ýmist hrá eða soðin. Plantan er rík af C-vítamíni.” (Ág.H.)Íslendingar hafa frá fornu fari nýtt það öðrum strandjurtum fremur og eru heimildir til um neyslu þess víða um landið. Það er þekkt undir ýmsum heitum; í Grímsnesinu kallaðist það til dæmis kálgresi eða eyjakál, arfakál á Ströndum en Breiðfirðingar notuðu yfirleitt aðeins orðið kál yfir jurtina.Sennilega er fyrst getið um skarfakál í Grettissögu og í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er skarfakál talið til hlunninda í Grímsey. Í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar sem og í ferðabók Sveins Pálssonar er skarfakál talið til hlunninda í Viðey. Skúli fógeti Magnússon nefnir einnig í skrifum sínum að skarfakál vaxi víða neðan hamra í Kjósa- og Gullbringusýslum og síga verði eftir því. Þetta virðist benda til þess að menn hafi þar lagt talsvert á sig til að ná í þessa nytjajurt. Samkvæmt Lúðvík Kristjánssyni virðist skarfakál hafa verið meira nýtt til manneldis á Breiðafjarðareyjum en annars staðar á landinu.Á sumum svæðum var skarfakálið fyrst og fremst notað til lækninga, til dæmis á Snæfellsnesi, en til manneldis á öðrum svæðum svo sem á Breiðafirði. Kálið var til dæmis sett út á skyr eða borðað ferskt sem salat, og telur Lúðvík að sá siður hafi borist hingað frá Dönum. Á Breiðafjarðareyjunum var algengast að sjóða skarfakálið í graut eða súpu. Í grautinn var iðulega haft bygg eða mjöl og oft sett mjólk yfir. Skarfakálsbrauð voru ennfremur þekkt frá Ströndum.Skarfakál er ríkt af C-vítamíni og hefur að öllum líkindum leikið stórt hlutverk í lýðheilsu Íslendinga og komið í veg fyrir að skyrbjúgur væri algengari en raun ber vitni. Skarfakál er einnig talið gott við ýmsum kvillum eins og gigt, bjúg, tíðastemmu, andfýlu og ýmsum húðsjúkdómum (Vísindavefurinn)
Útbreiðsla
Algengt í sjávarklettum um land allt. Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: Norðurhvel (N Ameríka, Evrópa, Asía)