Hippuris vulgaris

Ættkvísl
Hippuris
Nafn
vulgaris
Íslenskt nafn
Lófótur
Ætt
Hippuridaceae (Lófótsætt)
Samheiti
Hippuris lanceolata Retz.Hippuris melanocarpa N. Semen.
Lífsform
Fjölær jurt
Kjörlendi
Vex í votlendi, í grunnum vötnum, djúpum lækjum, síkjum og skurðum, en líka á landi og þá er hún skriðul í blautum mýrafenjum. Algeng um land allt.
Blómalitur
óásjáleg
Blómgunartími
Júlí
Hæð
0.20-0.60 m
Vaxtarlag
Nokkuð grófgerð vatnajurt. Stönglar standa að mestu upp úr vatninu, dökkgrænir, 2-3 mm gildir, holir, með kransstæðum, striklaga blöðum sem líkjast elftingu við fyrstu sýn, 20-60 sm á hæð/lengd eftir vatnsdýpi.
Lýsing
Í hverjum blaðkransi eru yfirleitt 8-12 striklaga eða lensulaga blöð, 1-1,5 sm að lengd á þeim hlutum stöngla sem standa upp úr, en töluvert lengri (2-3 sm) og læpulegri niðri í vatninu. Stöngulliðir styttri en blöðin.Blómin standa stök í blaðöxlunum, tvíkynja í sambýli og yfirsætin, örsmá og ósjáleg, kvenblóm ofar en karlblóm neðar. Blómhlífin einföld, í raun aðeins fjórir smásepar sem standa út úr frævunni ofanverðri. Ein fræva og einn rauður fræfill í hverju blómi. Blómgast í júlí.LÍK/LÍKAR: Flæðalófótur. Flæðalófótur er heldur lægri, 10-40 sm á hæð, með breiðari blöð (2-5 mm) og hefur aðeins fjögur til sex blöð í hverjum blaðkransi. Auk þess má geta að hann vex eingöngu á sjávarflæðum og/eða síkjum út frá þeim.
Heimildir
1,2,3,9, HKr
Reynsla
“Nefnist sums staðar marhálmur, eins og fleiri vatnaplöntur. Seyði at allri plöntunni hefur reynst vel til þess að stöðva blæðingar, jafnt útvortis sem innvortis”. (Ág.H.)
Útbreiðsla
Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: Argentína, Ástralía, Asía, Evrópa, Indónesía, Nýja Sjáland, Grænland, Tyrkland, Taívan, N Ameríka.