Vex í sandi sandorpnum hraunum og fjörum. Nær bestum þroska þar sem hreyfing er á sandinum. Myndar háa sandgíga á friðuðu landi. Algengur með ströndum fram og á söndum. Hefur verið sáð til að græða upp foksanda.
Blómgunartími
Júní-júlí
Hæð
0.50 - 1 m
Vaxtarlag
Stórvaxið og mjög grófgert blágrænt eða grágrænt gras 50-100 sm á hæð. Langir, skriðulir, marggreindir jarðstönglar. Stráin upprétt, hárlaus, gild og stinn.
Lýsing
Blöðin um 5-10 mm á breidd og 30-40 sm á lengd, hárlaus, snörp á efra borði, blágræn, flöt, en verpast við þurrkun. Blaðsprotablöðin oft mjórri. Samöxin stór á stráendum, gildust um miðju, 12-20 sm á lengd og 10-18 mm á breidd. Smáöxin oftast þríblóma, en stundum með fjórða blómið sem er þá gelt, títulaus. Axagnir lensulaga, oddmjóar, oft lítið eitt hærðar, 15-20 mm á lengd. Blómagnir kafloðnar, þær neðstu álíka langar og axagnirnar, þær efri styttri, oddhvassar, en týtulausar. Frjóhnappar fjólubláir, um 5 mm á lengd. Blómgast í júní-júlí. 2n =56LÍK/LÍKAR: Dúnmelur. Hann er náskyldur og líkur melnum, nema efri hluti stöngulsins er loðinn. Hefur verið einnig prófaður í uppgræðslu hér og hvar um landið.
Heimildir
2,3,9, HKr, Clayton, W.D., Harman, K.T. and Williamson, H. (2006 onwards). GrassBase - The Online World Grass Flora. http://www.kew.org/data/grasses-db.html. [accessed 09 Feb. 2007]; http://www.pfaf.org/database/plants.php?Leymus+arenarius
Reynsla
“Mörg nöfn eru höfð um tegundina og eru melur og melgras eða melgresi algengust. Af öðrum nöfnum má nefna: Blaðka, stöng, sandgras, kornstangagras, villikorn og pungmelur. Melurinn var nýttur fyrr á árum, einkum í Skaftafellssýslu. M. a. var kornið haft til manneldis og meljurnar hafðar í reiðinga. Fínustu rótarangarnir, sumtagið, var notað til sauma”. (Ág.H.)
Útbreiðsla
Algengt í sandi með ströndum landsins, einnig á uppgræðalsusvæðum á hálendisinu þar sem foksandur er. Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: Arktísk, Evrópa, temp. Asía, Ástralía, Nýja Sjáland, N Ameríka, S Ameríka.