Pinguicula vulgaris

Ættkvísl
Pinguicula
Nafn
vulgaris
Íslenskt nafn
Lyfjagras (Hleypigras)
Ætt
Lentibulariaceae (Blöðrujurtaætt)
Samheiti
Pinguicula bicolor WoloszczakPinguicula norica G. Beck
Lífsform
Fjölær jurt
Kjörlendi
Mólendi, deigir bakkar og flög. Algeng um allt land.
Blómalitur
Blár
Blómgunartími
Júní-júlí
Hæð
0.05-0.10 m
Vaxtarlag
Lágvaxin jurt, 5-10 (-13) sm á hæð, blöðin öll í stofnhvirfingu og eitt endastætt blóm á krókbognum stöngli.
Lýsing
Blöðin heilrend, aflöng eða sporbaugótt, kjötkennd og safamikil, öll í stofnhvirfingu við jörð, gulgræn og slímug, 2-3 sm á lengd, odddregin en snubbótt í endann með upporpnum röndum. Frá þeim vex 5-10 (-13) sm langur, blaðlaus leggur sem ber eitt blátt, óreglulegt blóm með spora. Blómin einsamhverf, lútandi, 1-1 ,5 sm í þvermál. Krónublöðin dökkfjólublá, með 5 ávölum, mislöngum sepum, þeir neðri lengri en þeir efri, með grönnum, dökkum spora. Krónuginið opið og hært. Bikarinn dökkur, með stuttum kirtilhárum. Ein fræva og tveir fræflar. Blómgast í júní. Blöðin eru þakin smáum kirtlum, sem gefa frá sér seigt og trefjakennt slím við snertingu. Í slíminu festast ýmis smádýr og leysast upp í ensými, sem vinnur á próteinum. Fer þá fram eins konar melting sambærileg við þá meltingu sem á sér stað í maga kjötæta. Þegar dýr festast nærri jaðri blaðsins, rúllast það upp og dýrið færist nær miðju, þar sem ensýmið er mest. Við meltinguna losnar aðallega köfnunarefni og því á lyfjagrasið auðvelt með að vaxa í köfnunarefnissnauðum jarðvegi.LÍK/LÍKAR: Engar
Heimildir
1,2,3,9, HKr
Reynsla
“Smyrsl af urtinni er búið til þannig, að 90 g af smásöxuðum blöðum eru soðin í 120 g af ósöltu smjöri og 60 g af tólg dágóða stund. Hið þunna er síað frá og það sem eftir verður notað við útbrotum, bólgu, sprungum og gömlum sárum í hörundi. Seyði af blöðum var talið gott til þess að hreinsa höfuð og styrkja hársvörð til varnar skalla. Nöfnin hleypis- og kæsisgras minna á, að það. var notað til þess að hleypa mjólk til skyrgerðar.” (Ág.H.)
Útbreiðsla
Algengt um land allt. Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: Arktísk, Evrópa, Kanada, Grænland, N Ameríka + Indland, Japan, Mexíkó, Nýja Sjáland ov.