Stönglar oft margir á sama jarðstöngli, uppsveigðir, meira eða minna greindir, smáhærðir og blöðóttir, 15-25 sm á hæð.
Lýsing
Blöðin eru þrí- til fimm fingruð og meira eða minna hærð, flest og stærst við grunn. Smáblöðin öfugegglaga, fleyglaga og heilrend neðan til en tannsepótt ofan miðju með +- snubbóttum tannsepum, (5–)7–10(–12) mm á lengd og (3–)4–8(–10) mm á breidd. Blaðæðar nokkuð áberandi. Stofnblöðin stilklöng en stöngulblöð stilkstyttri og minni eftir því sem ofar dregur, yfirleitt stilklaus efst á blómstilkum. Blómin fimmdeild, í fáblóma (oftast 3–5 blóma) skúfum úr efri blaðöxlum, hvert blóm um 1,5 sm í þvermál. Krónublöðin gul, með rauðgulum bletti neðst að innanverðu, öfugegglaga eða öfughjartalaga með grunnu viki í endann, allt að því helmingi lengri en bikarblöðin. Bikarinn tvöfaldur, 5 mjóir utanbikarflipar á milli breiðari, odddreginna, fimm bikarblaða. Utanbikarblöðin yfirleitt minni en bikarblöðin. Fræflar og frævur margar. Blómgast í maí-júní. LÍK/LÍKAR: Brennisóley og skriðsóley. Blöð gullmuru eru loðnari og minni en áðurnefndum sóleyjunum. Auðþekkt á utanbikarnum (tvöfaldur bikar) og blaðgerðinni.
Heimildir
1,2,3,9, HKr
Útbreiðsla
Algeng um land allt, bæði á láglendi og upp til fjalla. Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: Temp. Asía, Evrópa, V N-Ameríka