Prunella vulgaris

Ættkvísl
Prunella
Nafn
vulgaris
Íslenskt nafn
Blákolla
Ætt
Lamiaceae (Varablómaætt)
Samheiti
Prunella surrecta Dumort.
Lífsform
Fjölær jurt
Kjörlendi
Vex í margs konar valllendi, kjarri og blómlendi, oft við læki og laugar. Hitakær jurt sem er nokkuð algeng í hlýrri sveitum landsins, annars staðar aðeins við jarðhita.
Blómalitur
Fjólublár
Blómgunartími
Júní-júli
Hæð
0.10-0.20 m
Vaxtarlag
Fjölær jurt, 10-20 (-30) sm á hæð. Stönglar ferstrendir, hærðir og uppsveigðir.
Lýsing
Blöðin gagnstæð, gishærð, egglaga eða breiðlensulaga, heilrend eða gistennt einkum neðan til. Þau neðri stilklöng en þau efstu stilkstutt og standa fast við blómskipunina.Blóm í sívölum eða keflislaga um 2 sm löngum klasa á stöngulenda, en á milli klasanna eru háblöð eða ummynduð laufblöð, nýrlaga og dumbrauð, sem hafa fengið á sig form blómblaðanna. Efsta laufblaðaparið stendur venjulega rétt neðan við blómskipunina. Blómin stuttleggjuð, einsamhverf, mörg saman. Krónblöðin fjólublá, samblaða með hvelfdri, hjálmlaga efri vör. Bikarblöð bjöllulaga, dökkrauðfjólublá, með fimm misbreiðum, oddmjóum, taugaberum tönnum. Fræflar fjórir. Frævan verður að ferkleyfu klofaldini á bikarbotninum. Blómgast í júní-júlí.LÍK/LÍKAR: Engar.
Heimildir
1,2,3,9, HKr
Reynsla
“Seyði af blöðum og blómum er þekkt sem gott meðal við kverkabólgu og öðrum sárindum í hálsi. Ekki sakar að setja hunang út í seyðið. Fyrrum var því trúað, að te eða seyði af plöntunni gæti stöðvað innri blæðingar, en að líkindum er það tengt því, að plantan er oft æði rauðleit, einkum efst.” (Ág. H.)
Útbreiðsla
Algeng á Suðurlandi frá Snæfellsnesi austur í Hornafjörð. Einnig víða á Austfjörðum, á Fljótsdalshéraði og innsveitum Eyjafjarðar. Annars staðar fátíðari, og þá einkum við jarðhita. Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: N Evrópa, N Ameríka, Ástralía, Nýja Sjáland, Búthan, Indland, Japan, Korea Nepal, Pakistan, Rússland, Afríka, SV Asía ov.