Pseudorchis straminea

Ættkvísl
Pseudorchis
Nafn
straminea
Ssp./var
ssp. straminea
Íslenskt nafn
Hjónagrös
Ætt
Orchidaceae (Brönugrasætt)
Lífsform
Fjölær jurt
Kjörlendi
Vex á heiðum, í mýrlendi, grösugum móum, skýldum bollum og brekkum.
Blómgunartími
Júní-júlí
Hæð
0.15-0.25 m
Vaxtarlag
Rótarhnýðin klofin í sívalar, niðurmjóar greinar. Stönglar þrí- til fimmblaða, 2-5 mm í þvermál og 15-25 sm á hæð.
Lýsing
Blöðin stakstæð, gulgræn, heilrend, beinstrengjótt, slétt og gljáandi á efra borði. Efstu blöðin háblaðkennd, ydd og lensulaga. Neðri blöðin öfugegglaga eða nær lensulaga en nálega ætíð breiðust ofan við miðju, 3-8 sm á lengd og um 1-2 sm á breidd.Blómin eru í nokkuð þéttum, axleitum klasa á stöngulendanum. Blómin smá, gulhvít og sætilmandi. Klasinn sívalur, jafngildur og blómin snúa meira og minna öll í sömu áttina. Blómhlífin sexblaða og varaskipt. Efri vörin samsett af 5 blöðum sem öll, eru óskert, oddbaugótt eða lensulaga en neðri vörin er mynduð af einu þríflipuðu blaði. Blómin eru yfirsætin, og frævan því undir blómhlífinni, græn og snúin. Stoðblöðin lengri en egglegið. Bjúglaga, nokkuð víður spori stendur niður úr blómhlífinni, sporinn um einn þriðji af lengd egglegsins. Blómgast í júní-júlí. 2n = 40, 42.LÍK/LÍKAR: Friggjargras. Hjónagras þekkist á þríflipuðu blaði neðri varar, smærri blómum í fíngerðari blómskipan og á nokkuð einhliða og jafnmjóum klasa. Auk þessa má geta að laufblöð hjónagrass eru hlutfallslega breiðari miðað við lengd og mjög glansandi á efra borði.
Heimildir
1,2,3,9, HKr
Útbreiðsla
Algengt, einkum á Norður- og Austurlandi, heldur fátíðari á Suður- og Vesturlandi. Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: N Ameríka, Kanada, Grænland, Mexíkó, Noregur, Svíþjóð, Nýfundnaland, Labrador ov.