Rubus saxatilis

Ættkvísl
Rubus
Nafn
saxatilis
Íslenskt nafn
Hrútaber (Hrútaberjaklungur)
Ætt
Rosaceae (Rósaætt)
Samheiti
Selnorition saxatilis (L.) Raf. ex B.D.Jacks.
Lífsform
Fjölær hálfrunni
Kjörlendi
Vex á skýldum stöðum í grasbrekkum og hlíðum. Auk þess finnst það víða í skóglendi og kjarri.
Blómalitur
Hvítur
Blómgunartími
Júlí-ágúst
Hæð
0.10-0.30 m
Vaxtarlag
Myndar langar skriðular, blöðóttar og hærðar jarðrenglur sem geta orðið hátt á annan metra á lengd, hinsvegar rís það sjaldnast meir en 10-30 sm frá jörðu. Blómstönglar þyrnóttir, uppréttir eða skástæðir.
Lýsing
Blöðin stilklöng, fremur stór, þrífingruð, blaðstilkar loðnir og með örsmáum þyrnum. Smáblöðin tvísagtennt, tígullaga eða skakkegglaga, hliðarsmáblöðin á örstuttum stilk eða stilklaus en endasmáblaðið er á nokkuð lengri stilk. Axlablöð aðeins 3-5 mm á lengd.Blómin 8-10 mm í þvermál, fimmdeild, fá saman, bikarblöðin niðurbeygð en krónublöðin upprétt. Krónublöðin hvítleit, spaðalaga, naglgrönn. Bikarinn djúpt klofinn. Bikarblöðin 5-6 mm á lengd, græn, oddmjó og loðin. Aldin 7-8 mm í þvermál, rauð, gljáandi, þéttstæð steinaldin, hvert með einum steini utan um fræið. Hrútaberið er vel ætt, safamikið en lítið eitt súrt á bragðið. Mjög ríkt af C – vítamínum og má nota í sultu, hlaup og/eða saftir. Blómgast í júlí-ágúst. LÍK/LÍKAR: Auðþekkt í blóma eða aldini en blöðin áþekk blöðum jarðarberjalyngs. Blöð hrútaberjalyngsins má þekkja á stilkuðu endasmáblaði, blöðin mun minna hærð og með örfínum þyrnum á blaðstilkum.
Heimildir
1,2,3,9, HKr
Reynsla
“Dropar af berjum styrkja bæði maga og hjarta en lækna skyrbjúg. Þeir eru búnirtil þannig, að 100 g af steyttum berjum eru sett í tæpan hálfan lítra af sterku brennivíni og geymt á flösku í heitum sandi í þrjú dægur. Hið þunna er síðan síað frá og geymt. Af dropunum skal taka eina matskeið þrisvar á dag. Oft nefnt aðeins hrútaber eða hrútaberjalyng. Klungur merkir þyrnir.” (Ág.H.)
Útbreiðsla
Algeng um land allt, nema vantar sums staðar í Vestur- Húnavatnssýslu og sjaldséð eða ófundin á miðhálendinu. Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: Evrópa, Kanada, Grænland, Balí, Mexíkó, N Ameríka, temp. Asía.