Salix herbacea

Ættkvísl
Salix
Nafn
herbacea
Íslenskt nafn
Grasvíðir (Smjörlauf)
Ætt
Salicaceae (Víðiætt)
Lífsform
Dvergrunni
Kjörlendi
Vex í bollum og snjódældum til fjalla, en einnig í holtum og móum á láglendi.
Blómgunartími
Maí-júní
Hæð
0.02-0.10 m
Vaxtarlag
Dvergrunni með hvíta eða ljósa stöngla, sem skríða í mold eða mosa með greinaendana eina ofanjarðar, hæð 2-10 (-20) sm. Greinarnar rauðbrúnar (stundum gulleitar), hárlausar eða lítið eitt hærðar fyrst í stað.
Lýsing
Blöðin gljáandi oft dálítið rauðleit með áberandi æðaneti, kringluleit, fíntennt, stilkstutt, hærð í fyrstu, en verða fljótt hárlaus, 0,8-1,5 sm í þvermál. Blómin einkynja í stuttum reklum á endum árssprota. Sérbýli, þ.e.a.s. ýmist um karl- eða kvenplöntur að ræða. Karlblómin með einni, aflangri, ljósri eða rauðmengaðri rekilhlíf og tveim fræflum með gulum frjóhnöppum. Kvenblómin hvert um sig með stuttri rekilhlíf og einni aflangri, dökkrauðri frævu sem dregst fram í stút. Rekilhlífarnar hárlausar eða randhærðar. Aldin rauðbrún eða hárauð, nær hárlaus, legglaus, gljáandi hýði. Fræ með löngum, hvítum svifhárum. Blómgast í maí-júní.LÍK/LÍKAR: Fjalldrapi er áþekkur en mun stærri og grófari og með allt öðruvísi blóm og aldin. Einnig eru blöðin á fjalldrapa gróftennt.
Heimildir
1,2,3,9, HKr
Reynsla
“Grasvíðir var talinn góð beitarplanta fyrrum, eins og nöfnin geldingalauf, sauðkvistur og smjörlauf gefa til kynna. Fræullin nefnist kotún, og breiðist hýjungurinn á jörðina. Kotúnið þótti gott að leggja við sár og ekki talinn standa baðmull að baki að fínleika”. (Ág.H.)
Útbreiðsla
Algengur um land allt. Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: Evrópa, Kanada, Nýfundnaland, Labrador, Grænland, Mexíkó, Rússland, N Ameríka.