Stellaria crassifolia

Ættkvísl
Stellaria
Nafn
crassifolia
Íslenskt nafn
Stjörnuarfi
Ætt
Caryophyllaceae (Hjartagrasaætt)
Lífsform
Fjölær jurt
Kjörlendi
Vex í rökum jarðvegi í graslendi, við vatnsbakka og í þúfum í mýrlendi. Nokkuð algengur en lítið áberandi fyrr en seint á sumrin.
Blómalitur
Hvítur
Blómgunartími
Júlí
Hæð
0.05-0.35 m
Vaxtarlag
Fjölær, fínleg jurt, 5-35 sm á hæð. Stönglar hárlausir, margir af sama jarðstöngli, læpulegir, grannir oftast meira eða minna jarðlægir.
Lýsing
Blöðin gagnstæð, oftast 6-12 mm á lengd og 2-4 á breidd, stundum stærri, nær stilklaus, oddbaugótt eða lensulaga, hárlaus, ydd í endann. Síðla hausts myndar plantan oft þykkblöðótta, rauðmóleita æxliknappa á greinendunum. Háblöð græn og hárlaus. Blómin eru legglöng í strjálblóma skúfum. Blómin fimmdeild, hvít, 7-10 mm í þvermál. Krónublöðin djúpklofin, svo að þau virðast 10. Bikarblöðin himnurend, 3-4 mm á lengd, odddregin. Fræflar 10 og ein fræva með þrem stílum. Blómgast í júlí. 2n=26.LÍK/LÍKAR: Lágarfi, akurarfi & línarfi. Stjörnuarfinn þekkist frá lágarfa á því að blöðin mjókka meir að blaðfætinum; blóm eru minni, og háblöð græn og randháralaus. Akurarfi auðþekktur á himnukenndum, randhærðum háblöðum, stærri blómum, og lengri, breiðfættari laufblöðum. Línarfi (Stellaria borealis) er sjaldgæf tegund sem líkist stjörnuarfa. Hann er þó mun hávaxnari, ber minni blóm, krónublöðin mun styttri en bikarblöðin og efstu blöðin eru með gisnum randhárum (stækkunargleri) við grunninn.
Heimildir
1,2,3,9, HKr
Útbreiðsla
Allvíða um landið, einkum á Norðurlandi. Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: Kanda, Skandinavía, Þýskaland, Lettland, Mexíkó, Pólland, Rússland, N Ameríka.