Taraxacum officinale

Ættkvísl
Taraxacum
Nafn
officinale
Íslenskt nafn
Túnfífill
Ætt
Asteraceae (Körfublómaætt)
Samheiti
Taraxacum laeticolor Dahlst.
Lífsform
Fjölær jurt
Kjörlendi
Vex mjög víða, t.d. í túnum og öðru graslendi, í röskuðu landi við hús og bæi, í vegköntum og í bollum og dældum til fjalla.
Blómalitur
Gulur
Blómgunartími
Maí-ágúst
Hæð
0.10-0.40 m
Vaxtarlag
Stönglar ógreindir, oft sveigðir, ýmist ofurlítið lóhærðir eða hárlausir, með víðu miðholi, 3-6 mm í þvermál og 10-40 sm á hæð. Bæði stönglar og blöð með hvítum mjólkursafa.
Lýsing
Blöðin dökkgræn, öll stofnstæð, 15-30 sm löng, afar breytileg að gerð, oftast fjaðurflipótt með óreglulega gróftennta blaðhluta, endaflipinn spjótlaga, odddreginn. Ein ljósgul, stakstæð, meðalstór, þétt karfa á hverjum stöngulenda, 3-5 sm í þvermál. Reifablöðin undir körfunni lensulaga, dökkgræn, hárlaus, oft með ljósum eða glærum himnufaldi, þau efstu sveigð að körfunni, en þau neðri niðursveigð. Blómin öll geislablóm (tungukrýnd), geislinn (tungan) 2-3 mm á breidd, fagurgulur með fimm örtönnum í oddinn. Fræflar 5 í hverju blómi, samvaxnir í rör utan um stílinn sem hefur klofið fræni. Utanreifar mjólensulaga, meir en þrefalt lengri en breiðar. Karfan lokast eftir blómgun á meðan fræin eru að þroskast, þegar hún opnast aftur verður hún að biðukollu. Aldinin (fræin) á stilk sem er tvöfalt til þrefalt lengri en fræið, broddótt ofan til, með hvítan svifkrans. Eiginlegt fræ um 2,5 mm á lengd fullþroskað. Blómgast í maí-ágúst. 2n=24.LÍK/LÍKAR: Auðþekktur frá öðrum fíflum á ógreindum, blaðlausum stöngli, með víðu miðholi. Mjög breytileg tegund sem oft er skipt upp í margar mismunandi tegundir og/eða deilitegundir.
Heimildir
2,3,9, HKr
Útbreiðsla
Mjög algeng á láglendi um land allt.Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: N & S Ameríka, Evrópa, Asía ov.