Thymus praecox

Ættkvísl
Thymus
Nafn
praecox
Ssp./var
ssp. arcticus
Höfundur undirteg.
(E. Durand) Jalas
Íslenskt nafn
Blóðberg
Ætt
Lamiaceae (Varablómaætt)
Samheiti
Thymus drucei RonnigerThymus serpyllum subsp. britannicus (Ronniger) P. Fourn.
Lífsform
Dvergrunni, sígrænn, fjölær
Kjörlendi
Vex þar sem sólar nýtur, á þurrum melum, hlíðum og klettaskorum, á söndum og í þurru mólendi.
Blómalitur
Fjólublár
Blómgunartími
Júlí-ágúst
Hæð
0.10-0.30 m
Vaxtarlag
Lítill, sígrænn, fíngerður smárunni með litlum blöðum. Sprotar jarðlægir, rótskeyttir með uppréttar eða uppsveigðar hliðargreinar, 2-5 sm á hæð og 10-30 sm á lengd. Stönglar ferstrendir, hærðir á tveim hliðum, stundum alhærðir. Sterkan ilm leggur af plöntunni, mest áberandi rétt fyrir blómgun.
Lýsing
Laufblöðin lítil, gagnstæð, spaðalaga eða öfugegglaga, 3-5 mm að lengd með grófum randhárum neðan til.Blómin oftast rósrauð eða blárauð en stundum skjóta hvítingjar upp kollinum. Blómin allþétt saman á stöngulendum í öxlum efstu blaðanna. Krónan 5-deild, samblaða, varaskipt. Krónufliparnir ávalir, og mynda tveir efri vörina, en þrír þá neðri. Bikarinn varaskiptur, samblaða, loðinn, með oddmjóum flipum og vísa þrír upp og tveir niður. Bikarinn með hárkransi, sem lokar opinu eins og bómullarhnoðri að lokinni blómgun. Fræflar fjórir, tveir langir og tveir stuttir. Ein tvíblaða fræva með einum stíl. Blómgast í júlí-ágúst. 2n = 54.LÍK/LÍKAR: Engar.
Heimildir
1,2,3,9, HKr
Reynsla
“Seyði eða te at blóðbergi, sem er soðið drykklanga stund í vatni, þykir hressandi bæði til líkama og sálar. Á stundum eru höfð með blöð vallhumals, ljónslappa og rjúpnalauf. Ekki er ráð að drekka nema einn kaffibolla af því í einu tvisvar á dag. Sumir telja að brúka megi blóðbergste við timburmönnum, en aðrir við tíðateppu, þvagstemmu, flogaveiki, kvefi, harðlífi, hjartveiki og svefnleysi. Víða er blóðberg haft inni til þess að bæta lykt í húsum og á stundum er það lagt í fatakistur”. (Ág.H.)Björn Halldórsson, prestur í Sauðlauksdal sem var frumkvöðull í garðrækt og jarðyrkju á Íslandi, segir um blóðbergið: "Þessi urt hefur ágætan kraft til að styrkja sinar. Hverslags vín, sem á þessari urt hefur staðið nokkra stund og síðan drukkið, læknar sinadrátt, það sama læknar kvef, hreinsar og styrkir höfuð, þynnir blóð, læknar upp þembing þeirra manna, sem etið hafa mikið af hörðum mati. Það vermir kaldan maga og styrkir hann. Dúkur í þessu vín vættur og við lagður höfuð manns, bætir öngvit og svima, höfuðverk og hettusótt". "Seyði af þessari urt, sem te drukkið, er gott við hósta, læknar ölsýki þeirra manna, að morgni drukkið, sem ofdrukkið höfðu vín að kvöldi. Sé þessari urt stráð á gólf, eða reykt með henni í húsum, ellegar hún seydd í vatni og sama vatni dreift um húsið, flýja þaðan flær".
Útbreiðsla
Algengt um land allt. Hæst hefur það fundist í 1070 m hæð á Kirkjufjalli við Hörgárdal.Önnur náttúruleg heimkynni t.d.: Meira og minna um allt norðurhvel og suður til Kína og Indlands.