Alnus incana

Ættkvísl
Alnus
Nafn
incana
Ssp./var
ssp. tenuifolia
Höfundur undirteg.
(Nutt.) Breitung
Íslenskt nafn
Blæölur (blæelri)
Ætt
Bjarkarætt (Betulaceae)
Samheiti
Alnus tenuifolia Nutt.
Lífsform
Lauffellandi runni eða tré.
Kjörlendi
Sól eða hálfskuggi.
Blómalitur
Karlblóm mógræn, kvenblóm rauðleit-græn.
Blómgunartími
Snemma vors (mars).
Hæð
4-7 m
Vaxtarhraði
Vex hratt en er skammlíft tré.
Vaxtarlag
Lauffellandi, lítið tré eða stór runni (margstofna) með með hvelfda krónu, 7-10 m hátt. Ungar greinar lítið eitt hærðar í fyrstu, verða seinna hárlausar. Vetrarbrum rauð og með legg, hærð. Börkur grár til dökkgrár, verður rauðgrár með aldrinum og flagnar.
Lýsing
Lauf oddbaugótt til egglaga, 5-10 sm löng, 3-6 sm breið, ydd, grunnflipótt til þverflipótt eða tennt. Grunnur bogadreginn eða næstum hjartalaga, með um 10 strengjapör sem ná út í flipaendana, dökkgræn ofan, æðastrengir hærðir en ljós til blágræn neðan, meira eða minna hærð. Karlreklar 4-6 sm langir, kvenreklar allt að 3-5, mjóegglaga. Blómin eru í sambýli (einstök blóm eru annað hvort karl- eða kvenblóm, en bæði kynin er að finna á sömu plöntunni), vindfrævun.
Uppruni
V N-Ameríka Alaska til Kaliforníu og Nýju-Mexikó.
Harka
2
Heimildir
1, 7, http://www.pfaf.org
Fjölgun
Sáning og græðlingar. ----- Fræinu er best að sá í sólreit jafn fljótt og þau hafa náð fullum þroska að haustinu og aðeins þakið (t.d. með sandi). Fræ sem sáð er að vorinu spírar vel ef þau eru ekki þakin. Fræið ætti að spíra að vorinu jafn skjótt og hlýnar í veðri. Þegar plönturnar eru orðnar nógu stórar til að handfjatla þær eru plönturnar gróðursettar hver í sinn pott. Ef þær vaxa nógu vel er hægt að planta þeim á framtíðarstaðinn samsumar, að öðrum kosti eru þær geymdar úti og plantað á framtíðarstaðinn næsta sumar. Ef nóg fræ er til er hægt að sá því strjált í beð utan dyra að vorinu. Það er hægt að planta kímplöntunum út á framtíðavaxtarstaðinn annað hvort að haustinu/vetrinum eða þeim er leyft að vaxa áfram í fræbeðinu eitt sumar í viðbót áður en þeim er plantað út. ---- Græðlingar eru teknir um leið og laufið er fallið að haustinu og sett í sendinn jarðveg úti.
Notkun/nytjar
Í þyrpingar, beð, raðir, jafnvel klippt skjólbelti.Skógarþekja í garða, sólríkir jaðrar, hálfskuggi, mýragarðar. Þetta er ágæt uppgræðsluplanta til að endurnýja skóg á landbúnaðarlandi sem hefur farið illa og erfitt er að rækta upp að nýju. Vex hratt sem hefur í för með sér að skjól kemur fljótt og verður þar af leiðandi til þess að langlífari tré geta komið sér fyrir. Elritré eru með þunga laufkrónu og þegar laufið fellur á haustin hjálpar það við að byggja upp lífefnaríkan jarðveg. Kímplöntur elris geta ekki keppt vel í skuggsælum skógi svo að þessi tegund deyr smám sama út og aðrar tegundir taka við. Tegundin er með umfangsmikið rótarkerfi og hægt er að planta því til að binda árbakka svo að þeir verði ekki fyrir vatnsrofi. Börkur og reklar eru uppspretta tanníns. Dökkur litur fæst úr berkinum og liturinn getur verið frá appelsínugulu yfir í rautt og brúnt. Viðurinn er sums staðar notaður sem eldiviður.
Reynsla
Hefur reynst vel í LA og kelur ekki mikið (0-1) (Kuibyshev HBU 1987). Líkist Alnus rugosa sem þó má þekkja á þykkari og hrukkóttari laufum með inngreyptum æðum.
Útbreiðsla
Náttúrulegar aðstæður er rakur jarðvegur meðfram flóum, lækjum, tjörnum og vötnum, við fjallsrætur og í fjallahlíðum.Þessi tegund er með rótargerla sem nema nítur/köfnunarefni úr andrúmsloftinu. Sumt af þessu nítri notar plantan sjálf en sumt er notað af öðrum plöntum í nágrenninu.