Cornus sericea

Ættkvísl
Cornus
Nafn
sericea
Íslenskt nafn
Sveighyrnir
Ætt
Skollabersætt (Cornaceae)
Samheiti
Cornus stolonifera Michx.
Lífsform
Runni
Kjörlendi
Sól til hálfskuggi
Blómalitur
Hvítur (óásjáleg blóm)
Blómgunartími
Júní-júlí
Hæð
2-3 m (-5 m)
Vaxtarlag
Margstofna kröftugur, gisgreinóttur runni, myndar mikið af rótarskotum. Greinar útstæðar og bogsveigðar. Skrautlegast við tegundina eru skærrauðar greinarnar að vetrinum sem eru sérlega fallegar með snjóinn í bakgrunninum. Greinar jarðlægar, börkur á ungum greinum dökkpurpurarauður, greinar hárlausar.
Lýsing
Laufin 5-10 sm, oddbaugótt, egglaga til oddbaugótt-lensulaga, langydd, dökkgræn ofan, blágræn neðan með aðlæg hár bæði ofan og neðan, verða dökkpurpura að haustinu. Æðastrengjapör 5-7, laufleggir 2,5 sm. Fallegir haustlitir. Blómin móhvít, lítil, í skúfum, sem eru 3-5 sm í þvermál. Heldur áfram að blómstra fram eftir sumri. Blómunum fylgja hvít (stundum bláleit) ber síðsumars. Aldin hvít, hnöttótt, 6-9 mm breið. Aldinin eru eftirsótt af fuglum, og eru að minnsta kost jafn skrautleg ef ekki skrautlegri en blómin.
Uppruni
A N Ameríka.
Sjúkdómar
Lauf og greinar eru viðkvæm fyrir sveppsýkingu, bjöllum og lirfum stöku sinnum.
Harka
2
Heimildir
1, 4, http://www.missouriboranicalgarden.org
Fjölgun
Sumar- og vetrargræðlingar, sveiggræðsla að vori, haustsáning.
Notkun/nytjar
Stakstæð, í þyrpingar, í blönduð beð.
Reynsla
Í Lystigarðinum er til ein planta sem gróðursett var í beð 1991, önnur planta sem sáð var til 1982 og gróðursett í beð 1986, einnig eru til tvær plöntur sem sáð var til 1989 og gróðursettar í beð 1993 og ein planta sem sáð var til 1993 og gróðursett í beð 1994. ---- Harðgerð tegund og hefur reynst þokkalega í garðinum, kelur þó nokkuð mismikið frá ári til árs (k:0,5-3) kelur meira í frjóum og góðum jarðvegi. Má stýfa alveg niður árlega.
Yrki og undirteg.
Nokkur yrki í ræktun t.d. 'Flaviramea' er með gular greinar, 'Elongata' með grænar greinar, 'Baileyi' er runni allt að 3 m hár og skríður ekki, 'Kelseyi' verður aðeins um 50 sm á hæð og með skærrauðar greinar og 'Pendula' sem er lágvaxinn runni með niðursveigðar greinar.Af þessum yrkjum er aðeins 'Flaviramea' til í uppeldi í garðinum en vert væri að reyna öll hin yrkin.