Lewisia pygmaea

Ættkvísl
Lewisia
Nafn
pygmaea
Íslenskt nafn
Dvergblaðka
Ætt
Grýtuætt (Portulacaceae).
Lífsform
Lauffellandi fjölæringur.
Kjörlendi
Sól.
Blómalitur
Hvítur, bleikur-skærbleikur.
Blómgunartími
Maí-ágúst.
Hæð
- 10 sm
Vaxtarlag
Lágvaxinn, lauffellandi fjölæringur, ± legglaus, lægri en 10 sm á hæð í blóma, með brúsk af hálfuppréttum en stundum útstæðum laufum, laufin vaxa upp af stuttum stöngulstofni og kjötkennd stólparót sem er eins og gulrót í laginu, stundum greinótt.
Lýsing
Grunnlauf allmörg til fjölmörg, dökkgræn, bandlaga eða bandlaga-öfuglensulaga, 3-9 sm löng, 1-4(-4,5) mm breið, snubbótt til ydd, breikka að grunni, í vængjaðan lauflegg, með himnukennda jaðra, venjulega lengri en blómskipunin og mynda gisna brúska fremur en greinilegar blaðhvirfingar. Blómskipunin úr allmörgum, 1-6 mm löngum blómskipunarleggjum, hver með 1-7 blóm, ± jarðlægum eða hálfuppréttum, ef hálfuppréttir verða þeir niðursveigðir við aldinþroskann. Stoðblöð bandlaga-aflöng, bandlensulaga eða lenslaga, (2-)4-10 mm löng, þau 2 neðstu gagnstæð og samvaxin neðst, efri laufin stakstæð styðja blómskipunarleggi (ef blómin eru fleiri en eitt) stundum með kirtiltennur. Blómleggir sterklegir, 2-5(-10) mm löng. Blóm 1,5-2 sm í þvermál.Bikarblöð 2, næstum kringlótt, breið egglaga eða öfugegglaga, 2-5 mm löng, oftast þverstýfð, en stundum bogadregin, snubbótt, sljóydd, eða broddydd, jaðrar venjulega tenntir eða kirtiltenntir, kirtlarnir stundum dökkpurpura eða brúnleitar, áberandi netæðótt, einkum þegar þau eldast. Krónublöð 5-9 talsins, hvít eða bleik til skærbleik, stundum græn við grunninn, mjóaflöng, oddbaugótt eða öfuglensulaga, 6-10 mm löng, stundum með kirtiltennur í oddinn, mismunandi í sama blóminu. Fræflar (4-)5-6 talsins. Stíll djúpklofinn í 3-6 greinar. Hýði egglaga, 4-5 mm löng, himnukennd. Fræ 15-24 , svört, egglaga til öfugegglaga, 1-2 mm löng, glansandi, smágöddótt.
Uppruni
Bandaríkin, Kanada.
Harka
3
Heimildir
= 1, 22
Fjölgun
Skipting, sáning.
Notkun/nytjar
Í steinhæðir, í kanta skrautblómabeða.
Reynsla
Í Lystigarðinum eru til plöntur frá 1987 og líka yngri. Þrífast vel, bera mörg, smá, falleg blóm og sá sér dálítið.Harðgerð planta, þolir illa vetrarumhleypinga.
Útbreiðsla
AÐRAR UPPLÝSINGAR.Náttúrulegir vaxtarstaðir eru í 2745-4020 m h. y. s., það eru gróðurlitlir staðir til fjalla, lágvaxið gras eða möl og grýttir staðir, rakt eða þurrt á blómgunartímanum.