Potentilla dickinsii

Ættkvísl
Potentilla
Nafn
dickinsii
Íslenskt nafn
Völumura
Ætt
Rósaætt (Rosaceae).
Samheiti
Potentilla ancistrifolia Bunge v. dickinsii (Franchet & Savatier) Koidzumi; Potentilla dickinsii Franchet & Savatier v. typica Nakai
Lífsform
Fjölær jurt.
Kjörlendi
Sól.
Blómalitur
Gulur.
Blómgunartími
Júní-september.
Hæð
10-20 sm
Vaxtarlag
Stutt-dúnhærður fjölæringur með sterklega, stutta, greinótta, trékennda jarðstöngla. Blómleggir 10-20 sm langir, uppréttir. Grunnlauf með legg, axlablöð lensulaga, landydd. Smálauf 3-5 talsins, hálfleðurkennd, þau 3 efri stærri, tígul-egglaga til oddbaugótt 1,3-5 sm breið, ydd eða stundum snubbótt, með grófar, hvassyddar, tígullaga tennur. Græn ofan, bláleit neðan.
Lýsing
Harðgerður fjölæringur. Rætur grófgerðar, sívalar, trékenndar. Blómstönglar uppréttir, 10-30 sm háir, lítið eitt lang- og mjúkhærð ofantil, stundum líka með kirtilhár. Grunnlauf 5-15 sm að laufleggnum meðtöldum, axlablöð brún, himnukennd, ullhærð á neðra borði, laufleggurinn ögn langhærður, laufblaðkan fjaðurskipt, með 2-4 pör af smálaufum, egglaga, 1-4 × 0,5-1,5 sm, hálfleðurkennd, þéttullhærð á neðra borði, með aðlæga hár á æðastrengjunum eða ögn lang/mjúkhærð eða verða hárlaus með aldrinum. Á efra borði eru þau blöðrótt eða ekki með blöðrur, áberandi eða ekki áberandi netæðótt, grófsagtennt, tennurnar venjulega þríhyrndar-egglaga, snubbóttar eða yddar, legglauf 2 eða 3, axlablöð græn, egglensulaga eða lensulaga, laufkennd, jaðar 1-3-tenntur, sjaldan heilrendur, laufblaðkan með 1-3 pör af smálaufum. Blómskipunin endastæð, hálfsveiplaga eða lík skúf. Blómin 8-12 mm í þvermál, blómleggur 5-10 mm, þéttullhærður og með kirtilhár. Bikarblöð þríhyrnd-egglaga, halayddur, utanbikarblöð eru oftast purpuralit neðan, band-lensulaga, næstum jafnlöng og bikarblöðin, lítillega með löng og mjúkhærð, ydd. Krónublöð gul, öfugegglaga-aflöng, 0,5-1 × lengd bikarblaðanna, snubbótt. Eggleg þéttullhærð á saumnum, stíll næstum endastæður, þráðlaga, fræni breikka ekki. Smáhnotir gáróttar við fullan þroska, ógreinilega gáróttar eða sléttar, stundum ullhærðar kringum sauminn.
Uppruni
Kína, Japan, Kórea, Rússland.
Heimildir
16, Flora of China www.eFlora.org
Fjölgun
Sáning, skipting.
Notkun/nytjar
Í steinhæðir, beð.
Reynsla
Í Lystigarðinum er til ein planta undir þessu nafni, sem sáð var til 2008, þrífst vel.