Primula secundiflora

Ættkvísl
Primula
Nafn
secundiflora
Íslenskt nafn
Randalykill
Ætt
Maríulykilsætt (Primulaceae).
Lífsform
Fjölær jurt.
Kjörlendi
Sól, hálfskuggi.
Blómalitur
Rauðpurpura til dökkrósrauður.
Blómgunartími
Júlí.
Hæð
35-50 sm
Vaxtarlag
Tiltölulega auðræktuð tegund sem myndar langlífa, sígræna blaðhvirfingu. Stinnir blómstönglar.
Lýsing
Lauf ásamt legg 3-30 sm löng og 1-4 sm breið. Blaðkan er aflöng, lang-sporbaugótt eða öfugegglaga, snubbótt eða bogadregin í oddinn en mjókka smám saman að vængjuðum legg. Leggurinn mjög stuttur í fyrstu en undir haust er hann orðinn jafnlangur blöðkunni. Jaðrar smábogtenntir til djúpsagtenntir. Mjög ung lauf eru mélug á neðra borði. Blómstöngull sterklegur, 10-90 sm á hæð, alltaf mélugur efst, ber oftast einn sveip (stundum 3) með allt að 20 mislegglöngum, trektlaga, hangandi blómum, rauðpurpura eða dökkrósrauðum. Blóm 1,5 til 2,5 sm í þvermál, bikar klukku- til pípuklukkulaga, dökkrauður með 5 hvítar rákir. Flipar skarast.
Uppruni
SV Kína.
Sjúkdómar
Engir.
Harka
6
Heimildir
= 1,2,12
Fjölgun
Skipting að vori eða hausti, skipta þarf plöntunni 3ja hvert ár segja sumir, alveg niður í smæstu hluta, en það er nauðsynlegt til að halda plöntunni við og missa hana ekki. Sáning að hausti.
Notkun/nytjar
Sem undirgróður, í fjölæringabeð, í blómaengi. Tiltölulega auðræktuð í rökum jarðvegi og hálfskugga.
Reynsla
Þrífst vel norðanlands. Var lengi í ræktun hjá Herdísi Pálsdóttur í Fornhaga og hefur hún dreift honum víða um land. Vex í mýrum í útjaðri alparósaþyrpinga í heimkynnum sínum í SV Kína í 3200-4800 m hæð.