Quercus robur

Ættkvísl
Quercus
Nafn
robur
Íslenskt nafn
Brúneik
Ætt
Beykiætt (Fagaceae).
Samheiti
Quercus longaeva. Quercus pedunculata.
Lífsform
Lauffellandi tré.
Kjörlendi
Sól og skjól.
Blómalitur
Grænleitur.
Blómgunartími
Vor.
Hæð
5-6 m verður hérlendis, en það getur orðið allt að 30 m hátt og álíka breitt í heimkynnum sínum.
Vaxtarhraði
Vex hægt.
Vaxtarlag
Lauffellandi tré sem getur orðið 20-30(-45) m hátt í heimkynnum sínum. Krónan breið með útstæðar greinar, óregluleg. Bolurinn oft ekki beinn og nær aðeins stutt upp í krónuna. Börkur grábrúnn með djúpar sprungur. Ársprotar hárlausir.
Lýsing
Lauf 5-14 × 3,5-6 sm, aflöng til öfugegglaga, oddur bogadreginn, mjókka að grunni, tvíeyrð, jaðrar með 3-6 djúpa, bogadregna sepa, hárlaus, dökkgræn ofan, ljósari blágræn neðan. Laufleggur allt að 1 sm langur. Akörnin þroskast fyrsta árið, stök eða í þyrpingum, 1,5-2,5 sm, breytileg að formi, eggvala til aflöng-eggvala, broddydd, aldinskál hálfhnöttótt, gerð úr þéttaðlægum floskenndum bolla, sem lykur um ¼ til 1/3 af aldininu, aldinleggur 3-10 sm.
Uppruni
Evrópa til V Rússland.
Sjúkdómar
Hefur mikla mótstöðu gegn hunangssvepp.
Harka
Z6
Heimildir
= 1, http://www.pfaf.org
Fjölgun
Sáning. Fræið veslast fljótt upp ef það fær að þorna. Það er hægt að geyma fræið á rökum og svölum stað yfir veturinn en best er að sá því úti í sáningarbeði strax og það hefur þroskast, en það þarf að verja fræið fyrir músum. Fáeinum fræjum er hægt að sá í djúpa potta og setja í sólreit. Plönturnar mynda djúpa stólparót og það þarf að gróðursetja þær á framtíðarstaðinn jafn fljótt og kostur er, staðreyndin er sú að fræ sem sáð er á framtíðarstað trésins myndar bestu trén. Trén ættu ekki að vera í fræbeði í gróðrarstöð lengur en í 2 sumur án þess að vera hreyfð (á við erlendis) annars verður erfitt að flytja þau.
Notkun/nytjar
Stakstæð tré. Þrífst best í djúpum, frjóum leirjarðvegi. Ungar plöntur þola talsverðan hliðarskugga. Þrífst vel í þungum leirjarðvegi og í blautum jarðvegi svo fremi að jarðvegurinn sé ekki vatnsósa langtímum saman. Þrífst illa í þurrum og grunnum jarðvegi en er að öðru leyti þurrkþolin þegar plantan hefur komið sér fyrir í jarðveginum. Þolir að vera áveðurs en þolir ekki saltúða frá hafi. Tréð blómstrar á ársprotana að vorinu, fræið þroskast samsumars. Ekki er vitað til þess að eikur hafi blómstrað og þroskað fræ hérlendis. Myndar oft blendinga með öðrum tegundum af ættkvíslinni.
Reynsla
í Lystigarðinum eru til tvær plöntur undir þessu nafni sem komu í garðinn 1988 og gróðursettar í beð 2001 og 2005. Voru lengi í gróðurhúsi. Hafa vaxið næstum áfallalaust eftir að þær komu á framtíðarstaðinn. Þrífast nokkuð vel, kala lítið.