Ribes uva-crispa

Ættkvísl
Ribes
Nafn
uva-crispa
Íslenskt nafn
Stikilsber
Ætt
Garðaberjaætt (Grossulariaceae).
Lífsform
Lauffellandi runni.
Kjörlendi
Sól og skjól.
Blómalitur
Grænn, bleikgrænn.
Blómgunartími
Júní-júlí
Hæð
0,5-1 m
Vaxtarlag
Lágvaxinn, þyrnóttur, útbreiddur runni, þéttgreindur frá grunni, allt að 1 m hár, greinar eru með 1-3 sterklega þyrna við hvern blaðfót og minni þyrnar á víð og dreif, þyrnarnir eru 1 sm langir. Greinarnar gráar, en gulbrúnar efst. Greinar uppsveigðar eða uppréttar, gamlar greinar öskugráar. Árssprotar og blöð hærð.
Lýsing

Lauf 2-6 sm, grunnur bogadreginn, hjartalaga, 3 eða 5 flipótt, jaðrar með djúpar, misstórar, bogatennur, ljósdúnhærð á neðra borði. Blómin 1-3 saman í leggjuðum klasa, græn eða bleikgræn. Bikarbolli með disk, bikarflipar jafnlangir og reifarnar. Fræflar aðeins hálf lengd bikarflipanna, verða uppréttir eftir því sem berið þrútnar. Eggleg flókahærð, stöku sinnum ögn kirtilhærð. Berin lítil, gulgræn, dúnhærð.

Uppruni
NA & M Evrópa.
Harka
5
Heimildir
1, http://www.lbhi.is, Ágústa Björnsdóttir: Stikilsber. Blóm vikunnar. 301. þáttur. Morgunblaðið 1994.
Fjölgun
Vetrar- og sumargræðlingar.
Notkun/nytjar
Í þyrpingar, í limgerði, sem berjarunni, í blönduð runnabeð.
Reynsla
Í Lystigarðinum eru til tvær plöntur, báðar upprunalega græðlingar, annar frá Gesti Ólafssyni (1983) og hinn frá Kristni Guðsteinssyni (1985). Stæðilegur runni, um 1 m háir og með gul haustlauf langt fram eftir hausti (2011), dálítð kal gegnum árin. Plönturnar eru á allt of þurrum og skuggsælum stað svo lítið er um ber svona yfirleitt. Engin ber 2011.Meðalharðgerður runni, þarf sól og skjól eigi hún að gefa árvissa uppskeru. Grisja þarf reglulega. Stikilberjarunnarnir byrja fyrr að vaxa á vorin en aðrir runnar af ættkvíslinni Ribes, þess vegna er þeim hættara við að verða fyrir skemmdum af völdum næðinga og vorfrosta. Blómin geta visnað. Þol stikilsberjanna fer eftir uppruna þeirra, t.d. eru finnsku yrkin Hinnomäki þolin. Þau yrki sem ræktuð eru hérlendis eru blendingar milli amerísks stikilsbers (Ribes hirtellum) og evrópsks (Ribes uva-crispa). Stikilsberjarunnarnir þroska ber nokkru síðar en rifs, oft ekki fyrr en upp úr miðjum september. Berin ná ekki þroska í öllum árum. Sjálf stikilsberin eru mun bragðbetri eftir að hafa frosið dálítið að haustinu.
Yrki og undirteg.
v. reclinatum (L.) Berl.Eggleg með stinn dúnhár, oft kirtilhærð. Berin hnöttótt eða ílöng (sporvala), hárlaus eða kirtilþornhærð, rauð eða gul. Evrópa, N Afríka, Kákasus.
Útbreiðsla
AÐRAR UPPLÝSINGAR: Bæði aðaltegundin og afbrigðið eru foreldrar ræktaðra stikilsberja.