Sorbus aria

Ættkvísl
Sorbus
Nafn
aria
Íslenskt nafn
Seljureynir
Ætt
Rósaætt (Rosaceae).
Lífsform
Lauffellandi, stór runni - lítið tré
Kjörlendi
Sól.
Blómalitur
Hvítur.
Blómgunartími
Júní - júlí.
Hæð
4-7(-12 m)
Vaxtarhraði
Fremur hægvaxta.
Vaxtarlag
Lítið eða meðalstórt tré, yfirleitt þétt með hvelfda krónu, allt að 12 m hátt í heimkynnum sínum. Hér vex hann fremur sem stórvaxinn runni, 4-6 m á hæð. Aðalgreinar meira og minna uppréttar og stinnar. Árssprotar hvíthærðir í fyrstu en með aldrinum verða þeir gljáandi og dökkbrúnir. Börkurinn er sléttur og svargrár. Brumin eru egglaga, grænbrún-grængul með hærðum endum og jöðrum brumhlífa, köntuð.
Lýsing
Laufin eru heil, oddbaugótt-egglaga, breiðegglaga, sjaldnar öfugegglaga (eða +/- örlítið sepótt), bogadregin eða ydd í enda með 10-14 samsíða æðapörum, óreglulega tvísagtennt og vísa tennur fram á við, bogadregin eða breið-fleyglaga við grunninn, grágræn í fyrstu en síðar skærgræn á efra borði en hvítdúnhærð á því neðra, 5-12 sm löng og 3-7 sm á breidd. Gulir hautlitir. Blómin hvít, hvert um 1-1,5 sm í þvermál, yfirleitt nokkur saman í hálfsveip. Blómstilkar og bikar hærðir. Aldin örlítið ílöng, djúp fagurrauð á litinn þegar þau eru fullþroskuð, 8-15 mm í þvermál. Aldin yfirleitt með mörgum brúnleitum barkaropum fullþroskuð og örlítið hrjúf viðkomu.Líkist urðareyni (Sorbus rupicola). Urðareynir er álíka hár með áþekk blöð en aldinin eru mun grófari af brúnum barkaropum auk þess sem þau eru hærð og aldinin eru einnig heldur breiðari en löng en aldinin á seljureyni (S. aria) eru ílöng. Laufin eru öfugegglaga til öfuglensulaga og breiðust ofan við miðju, yfirleitt fleyglaga við grunninn með heilrendum neðri hluta og aðeins með 7-9 æðapörum og aldrei sepótt.
Uppruni
Evrópa fjöll (t.d. Írland, S England & M Evrópa).
Harka
5
Heimildir
= 1
Fjölgun
Sáning, en yrkjum fjölgað með ágræðslu.
Notkun/nytjar
Stakstæð tré, í þyrpingar, sunnan við stór grenitré.
Reynsla
Meðalharðgerður til harðgerður, ekki mjög algengur en til í nokkrum gömlum görðum, þar sem hann hefur vaxið áratugum saman. Þarf kalkríkan sendinn og velframræstan, hlýjan jarðveg og sólríkan stað til að þrífast sem best. Seljureynir (Sorbus aria), LA númer 78265 frá Jóhanni Pálssyni er í J7-A14, gróðursettur þar 1989, G07. Hefur reynst vel, kelur ekkert en vex fremur hægt.
Yrki og undirteg.
Nokkur ræktunarafbrigði: 'Gigantea' með mun stærri og dálítð sepótt blöð og aldin sem eru allt að 2 sm á lengd. 'Majestica' er með stærstu blöðin eru allt að 18 sm á lengd (erlendis) og 10 sm á breidd, og aldinin eru um 1,5 sm á lengd, dökkrauð og þykir langfallegasta yrkið erlendis.'Magnefica' er með granna krónu, þykk og leðurkennd blöð og hanga á trénu langt fram á vetur.'Lutescens' keilulaga, þétt króna, blöðin oddbaugótt-öfugegglaga, þéttlóhærð beggja vegna í fyrstu en síðar verða hárin gulhvít eða gulgræn og af því er sennilega yrkisheitið dregið. Nokkur fleiri eru til sem ekki eru talin hér.