Sorbus intermedia

Ættkvísl
Sorbus
Nafn
intermedia
Íslenskt nafn
Silfurreynir
Ætt
Rósaætt (Rosaceae).
Lífsform
Lauffellandi tré.
Kjörlendi
Sól.
Blómalitur
Hvítur.
Blómgunartími
Júní-júlí.
Hæð
10-12m
Vaxtarhraði
Fremur hægvaxta.
Vaxtarlag
Einstofna eða margstofna tré, mikið um sig en bolstutt, 8-12 m á hæð. Greinar nokkuð reglulegar og fremur útstæðar, jafnvel dálítið slútandi. Árssprotar brúnir og þétthærðir í fyrstu en síðar hárlausir. Börkur grár. Brumin rauðbrún, ávöl og með sveigðum enda, brumhlífar randhærðar.
Lýsing
Blöðin þykk, dálítið leðurkennd, heil, breiðegglaga, 5-10 sm á lengd og 2,5-7,5 sm á breidd, sepótt ávölum sepum, snubbótt í endann en breið-fleyglaga eða ávöl fyrir grunninn, stundum er neðri hluti blaðsins óreglulega fjaðurflipóttur á kröftugum árssprotum, óreglulega sagtennt, hærð í fyrstu en síðan gljáandi dökkgræn á efra borði en gráhærð til gulgráhærð á því neðra (ekki hvíthærð). Blaðstilkar 1,5-2 sm á lengd. Gulir haustlitir. Blómin hvít til gráhvít, mörg saman í 8-10 sm breiðum sveipum. Bikar og blómstilkar ullhærðir. Aldin sporvala, brúnrauð, appelsínugul eða skærrauð, 12-15 mm á lengd og 8-10 mm á breidd. Aldin með uppréttum bikarblaðarestum.
Uppruni
Í löndum við sunnanvert Eystrasalt en algengstur í S Svíþjóð og á Borgundarhólmi.
Harka
5
Heimildir
1, ÓN
Fjölgun
Haustsáning, (forkæla fræ).
Notkun/nytjar
Þyrpingar, stakstæð, raðir, götutré. Náttúrulegur blendingur en af hvaða tegundum eru grasafræðingar ekki sammála um (aria + aucuparia eða torminalis).
Reynsla
Harðgerður en hægvaxta og viðkvæmur fyrstu 6-8 árin, talinn vind- og seltuþolinn. Nokkur eintök í garðinum, t.d. í P6-B03 & MA5-14. Nokkuð algengur í görðum frá fyrri hluta 20 aldar, sérstaklega í Reykjavík og á Akureyri. Sá elsti sem vitað er um stendur í kirkjugarðinum við Aðalstræti 9 og var gróðursettur 1883. Silfurreynir er ekki sá auðveldasti í uppeldi og er gjarnan 10-15 ár að ná sér á strik. Best er að ala hann upp í gróðurhúsi til að byrja með. Hann verður gjarnan fyrir haustkali á í uppvexti á unga aldri og verður þá kræklóttur og gjarnan margstofna. Annars má segja að hann sé bærilega harðgerður og kelur lítið sem ekkert eftir unglingsárin. Ber blóm og ber árlega hérlendis. Þroskar fræ en spírunarprósentan er ekki mjög há. Geldæxlun og því koma plöntur sem líkjast foreldrinu að öllu leyti upp af fræinu. Stendur oft grænn langt fram eftir hausti.